Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, segist efast um að mútugreiðslur hafi átt sér stað í Namibíu. Þetta sagði hann í viðtali við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv í dag.

Segir Jóhannes hafa verið einan að verki

„Ég efast um að nokkrar mútugreiðslur hafi átt sér stað eða að fyrirtækið sé eða hafi verið flækt í nokkuð ólögmætt,“ segir Björgólfur í viðtalinu. Hann segist þá telja að Jóhannes Stefánsson uppljóstrari hafi verið einn að verki þegar kom að mútugreiðslunum.

„Augljóst er að aðeins valdir tölvupóstar eru birtir á Wikileaks,“ heldur Björgólfur áfram. Blaðið vitnar einnig í tölvupóst sem Björgólfur sendi starfsfólki Samherja í síðustu viku þar sem hann gagnrýnir það að Jóhannes skuli aðeins velja úr tæplega helming tölvupósta sinna við starfsmenn fyrirtækisins um viðskiptin í Namibíu. „Við veltum því til dæmis fyrir okkur hvers vegna engir póstar voru birtir frá árinu 2015,“ segir hann.

Jóhannes Stefánsson gegnir stöðu uppljóstrara í Namibíu vegna Samherjamálsins.

Björgólfur er þá spurður út í greiðslur til félags skráð í Dúbaí í eigu James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformanns namibísku ríkisútgerðarinnar Fischor, sem héldu áfram eftir að Jóhannes hafði hætt störfum hjá Samherja, en hann sagði ekkert benda til þess að þær greiðslur væru ólöglegar.

„Þetta voru kvótar frá yfirvöldum sem við skulum vona að hafi verið lögum samkvæmt. Samherji fékk enga kvóta umfram það,“ segir Björgólfur um greiðslurnar. Einnig hafi eitthvað verið greitt fyrir ráðgjöf.

Blaðamaður Dagens Næringsliv bendir honum þá á að eigandi reikningsins sem greiðslurnar fóru inn á sé nú í fangelsi í Namibíu, þar sem hann hefur verið ákærður ásamt fimm öðrum fyrir að þiggja mútugreiðslur frá Samherja. „Já, hann er borinn þungum sökum en hefur ekki hlotið dóm,“ svarar Björgólfur þá.

Ætlast ekki til þess að sitja lengi sem forstjóri

„Er það vani ykkar að að greiða einkaaðilum þegar þið fáið úthlutað kvóta erlendis?“ spyr blaðamaðurinn. Björgólfur kvaðst þá ekki geta svarað því því málið væri nú í rannsókn. „Berist manni reikningur fyrir þjónustu eða kvóta þá greiðir maður hann. Okkur bárust reikningar frá fyrirtækjum sem seldu kvóta og við greiddum þá.“

Hann segir fyrirtækið nú hafa ráðið til sín norska lögmannsstofu til að rannsaka málið fyrir sig til að leiða í ljós hvað átti sér stað í Namibíu. Hann býst þá við að hann muni ekki sitja sem forstjóri Samherja lengi, og líklega ljúka störfum sínum á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Óvíst er hvort fyrirtækið leggi upp með að Þorsteinn Már Baldvinsson, sem steig tímabundið til hliðar sem forstjóri, taki aftur við þeirri stöðu.