For­stjóri Pfizer, Albert Bourla, segir lík­legt að fólk verði að fá þriðju sprautu bólu­efnisins á innan við 12 mánuðum frá fyrstu og annarri sprautu. Fólk þurfi þá mögu­lega ár­legar sprautur af bólu­efninu til að við­halda ó­næmi við Co­vid-19.

Frá þessu greinir frétta­stofa CNBC í dag. Ó­ljóst er hversu lengi ó­næmi við sjúk­dómnum er til staðar hjá fólki eftir bólu­setningu en rann­sóknir á því eru enn í gangi. Frum­niður­stöður hafa sýnt að bólu­efni Moderna og Pfizer haldi mestri virkni sinni í að minnsta kosti sex mánuði eftir sprauturnar. Enn er ó­ljóst hversu mikil virknin er eftir það.

Sér­fræðingar hafa þá varað við því að jafn­vel þó vörnin endist í líkama fólks mun lengur en í sex mánuði gætu ný og skæðari af­brigði veirunnar kallað á þörf fyrir reglu­legri sprautur af bólu­efni. Fyrir­komu­lagið gæti orðið svipað ár­legum flensu­sprautum.

Rannsaka smit hjá fólki sem var bólusett

Reu­ters greinir frá því að Banda­ríkja­menn hafi þegar hafið undir­búning vegna þessara frétta. Yfir­maður Co­vid-teymis Banda­ríkja­for­setans Joe Biden segir að þeir sem eru í við­kvæmustu hópunum verði settir í for­gang fyrir þriðju sprautunni.

Sér­stakar rann­sóknir eru þá í gangi í Banda­ríkjunum á ein­stak­lingum sem hafa smitast eftir að hafa fengið báðar sprautur af bólu­efni Pfizer eða Moderna. Af þeim 77 milljónum sem hafa verið bólu­sett þar í landi hafa 5.800 smitast af veirunni. Leggja þurfti 396 þeirra inn á sjúkra­hús og 74 létust.

Ljóst er að ein­hverjir þeirra sem smituðust þrátt fyrir að vera bólu­settir hafi ein­fald­lega ekki búið til nógu sterkt ó­næmis­við­bragð við veirunni. Á­hyggjur eru þó uppi um að í ein­hverjum til­fellum megi út­skýra smitin með nýjum stofnum veirunnar sem kunna að vera skæðari en aðrir.