„Það vantar vatn til að knýja vatns­afls­virkjanir, það er vandinn,“ segir Bjarni Bjarna­son, for­stjóri Orku­veitu Reykja­víkur. Hann segir um­ræðuna um skort á raf­magni hér á landi vera undar­lega.

„Það er verið að skerða núna raf­magn til stór­iðju og fiski­mjöls­verk­smiðja vegna þess að það er ekki hægt að vinna nógu mikið raf­magn eins og er. Það er ekki vegna þess að það vanti virkjanir. Orku­vinnslu­getan á venju­legu ári er meira en full­nægjandi. Á­stæðan er að það vantar vatn til að keyra virkjanir, það er ein­göngu þess vegna,“ segir Bjarni.

Um 70 prósent af öllu raf­magni hér á landi koma úr vatns­afls­virkjunum, nú er Þóris­vatn komið niður að hættu­mörkum. „Þegar kemur að orku­vinnslu­getu í meðal­ári þá er hún það mikil að það væri engin skerðing í dag. Hún er meiri en öll sala í dag. Ef við horfum á árið í fyrra þá var raf­magns­vinnslu­getan 21 tera­vatt­stund. Í fyrra seldum við 19,1. Tíu prósent af raf­magns­vinnslu­getunni voru ó­seld. Salan hefur senni­lega aukist í ár um eina tera­vatt­stund, en við erum samt með tæpa tera­vatt­stund ó­selda miðað við vinnslu­getu.“

Lang­stærstur hluti fer til stór­iðju

Bjarni segir að Ís­land fram­leiði fimm sinnum meira raf­magn en aðrar þjóðir, 80 prósent af því fari til stór­iðju. Stór­iðja fái raf­magn á lægra verði en heimili vegna þess að raf­magn til þeirra sé skert í að­stæðum sem þessum. Það vanti ekkert upp á fyrir orku­skipti í sam­göngum.

„Ó­selt raf­magn í ár, miðað við fulla vinnslu­getu, er um 0,9 tera­vatt­stundir. Það er nóg til að knýja allan raf­bíla­flotann, alla einka­bíla í landinu sem eru um 240 þúsund. Það er á­ætlað að þeirri tölu verði náð árið 2040. Þannig að það vantar ekkert raf­magn á raf­bíla,“ segir Bjarni.