„Það vantar vatn til að knýja vatnsaflsvirkjanir, það er vandinn,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Hann segir umræðuna um skort á rafmagni hér á landi vera undarlega.
„Það er verið að skerða núna rafmagn til stóriðju og fiskimjölsverksmiðja vegna þess að það er ekki hægt að vinna nógu mikið rafmagn eins og er. Það er ekki vegna þess að það vanti virkjanir. Orkuvinnslugetan á venjulegu ári er meira en fullnægjandi. Ástæðan er að það vantar vatn til að keyra virkjanir, það er eingöngu þess vegna,“ segir Bjarni.
Um 70 prósent af öllu rafmagni hér á landi koma úr vatnsaflsvirkjunum, nú er Þórisvatn komið niður að hættumörkum. „Þegar kemur að orkuvinnslugetu í meðalári þá er hún það mikil að það væri engin skerðing í dag. Hún er meiri en öll sala í dag. Ef við horfum á árið í fyrra þá var rafmagnsvinnslugetan 21 teravattstund. Í fyrra seldum við 19,1. Tíu prósent af rafmagnsvinnslugetunni voru óseld. Salan hefur sennilega aukist í ár um eina teravattstund, en við erum samt með tæpa teravattstund óselda miðað við vinnslugetu.“
Langstærstur hluti fer til stóriðju
Bjarni segir að Ísland framleiði fimm sinnum meira rafmagn en aðrar þjóðir, 80 prósent af því fari til stóriðju. Stóriðja fái rafmagn á lægra verði en heimili vegna þess að rafmagn til þeirra sé skert í aðstæðum sem þessum. Það vanti ekkert upp á fyrir orkuskipti í samgöngum.
„Óselt rafmagn í ár, miðað við fulla vinnslugetu, er um 0,9 teravattstundir. Það er nóg til að knýja allan rafbílaflotann, alla einkabíla í landinu sem eru um 240 þúsund. Það er áætlað að þeirri tölu verði náð árið 2040. Þannig að það vantar ekkert rafmagn á rafbíla,“ segir Bjarni.