Á fundi borgar­ráðs Reykja­víkur í gær lögðu Sósíal­ista­flokkur ís­lands og Flokkur fólksins fram bókanir varðandi laun Bjarna Bjarna­sonar, for­stjóra Orku­veitu Reykja­víkur og til­lögu starfs­kjara­nefndar frá júní síðast­liðnum um að laun Bjarna hækki aftur­virkt um 5,5 prósent frá fyrsta janúar 2022.

Sú til­laga var sam­þykkt þann 27. júní síðast­liðinn af stjórn Orku­veitu Reykja­víkur. Hildur Björns­dóttir, nú­verandi odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins sat hjá.

Í fyrra var greint frá því að stjórn OR hafi sam­þykkt að hækka laun Bjarna um 370 þúsund krónur á mánuði, eða 14,8 prósent. Laun Bjarna væru þar að leiðandi orðin 2.872.669 krónur. Með hækkuninni sem nú hefur verið samþykkt bætast tæp 160 þúsund við þau og kemur mánaðarlaunum forstjórans yfir þrjár milljónir.

Ekkert lög­mál að for­stjórar eigi að vera á ofur­launum

Í bókun Sósíal­ista­flokksins segir að launa­stefna borgarinnar og fyrir­tækja hennar sé í engum takti við raun­veru­leikann. Launa­bilið milli þeirra hæst launuðu og lægst launuðu sé gríðar­legt.

Sanna Magdalena Mörtudóttir er fulltrúi Sósíalista í borgarráði.
Fréttablaðið/ERNIR

„Á meðan að mann­eskjur á lág­marks­launum og undir því eiga ekki fyrir mat út mánuðinn er verið að hækka laun for­stjóra sem er á ofur­launum,“ segir meðal annars í bókun Sósíal­istaflokksins.

Í bókun Flokks fólksins segir að laun Bjarna séu út úr öllu korti, sér­stak­lega í ljósi þess að verð­bólga hafi ekki verið hærri síðan fyrir hrun.

Kolbrún Baldursdóttir fulltrúi Flokks fólksins í borgarráði segir laun forstjórans úr öllu korti.
Fréttablaðið/ERNIR

„Það er ekkert lög­mál að for­stjórar eigi að vera á ofur­launum. Rökin fyrir svo háum launum for­stjóra eru oft á þá leið að þeir séu að standa sig svo vel í starfi. Þetta eru undar­leg rök, eins og það sé ekki bein­línis sjálf­gefið að for­stjóri standi sig vel. For­stjórar orku­fyrir­tækja eru sára­fáir en þeir eru í höfrunga­hlaupi hver við annan og hækka á víxl í launum,“ segir meðal annas í bókuninni.