Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum þann 26. febrúar síðastliðinn tillögu starfskjaranefndar félagsins um að rétt væri að hækka grunnlaun Bjarna Bjarnasonar, forstjóra OR, um 6,9 prósent.

Með hækkuninni fara grunnlaun Bjarna úr 2.220.870 krónum í 2.374.110 krónur og hækka því um rúmar 153 þúsund krónur á mánuði eða rúmar 1,8 milljónir á ári.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í febrúar í fyrra hækkaði stjórn OR líka laun Bjarna þá um 8,6 prósent.

Við það fóru heildarlaun forstjórans í um 2,8 milljónir króna sem skýrist af því að ofan á grunnlaun forstjórans lagðist í fyrra 147 þúsund króna greiðsla á mánuði, eða sem nemur mánaðarlegu skattmati ríkisskattstjóra á hlunnindum þar sem forstjóri nýtur ekki afnota af bifreið í eigu OR. Við það bættust síðan tvisvar sinnum 230 þúsund krónur á mánuði fyrir að gegna stjórnarformennsku í tveimur dótturfélögum OR, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur. Bjarni gegnir enn stjórnarformennsku í þessum dótturfélögum.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá OR hefur þóknun Bjarna fyrir stjórnarformennskuna hækkað síðan í fyrra og nemur nú 243.836 krónum fyrir hvort félag. Reiknuð bifreiðahlunnindi hafa á móti lækkað og eru nú 132.111 krónur.

Eftir hækkunina nú í febrúar nema heildarlaun forstjóra OR því 2.993.893 krónum á mánuði. Líkt og Fréttablaðið greindi frá í fyrra þá námu mánaðarlaun forstjóra OR 1.340 þúsund krónum árið 2011 þegar Bjarni tók við forstjórastarfinu og hafa því rúmlega tvöfaldast síðan þá.

Til samanburðar þá nema heildarlaun Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur, rúmum tveimur milljónum króna á mánuði að föstum starfskostnaði og þóknun vegna stjórnarformennsku í slökkviliðinu meðtöldum.

Samkvæmt ársreikningi OR nam hagnaður félagsins 16,3 milljörðum króna en um helmingur hagnaðarins er til kominn vegna reiknaðra framtíðartekna af rafmagnssölu sem tengd er álverði. Stærstu eigendur Orkuveitu Reykjavíkur eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð.