Ugur Sahin, forstjóri þýska líftæknifyrirtækisins BioNTech, er bjartsýnn á að lífshættir fólks verði aftur komnir í eðlilegt horf næsta sumar eða veturinn 2021. 

Greint var frá því í gær að niðurstöður þriðja stigs prófana á Covid-19 bóluefni BioNTech og bandaríska lyfjafyrirtækisins Pfizer bendi til að það verji fólk gegn sjúkdómnum í 95% tilfella.

Eru þær niðurstöður í samræmi við bráðabirgðaniðurstöður sem komu fram í síðustu viku. Hyggjast fyrirtækin sækja um neyðarleyfi fyrir bóluefninu á næstu dögum og er það annað tveggja sem hljóta nú flýtimeðferð hjá Lyfjastofnun Evrópu.

Sahin sagði í samtali við CNN að hann taldi líklegt að bóluefni þeirra myndi fá bráðabirgðaleyfi hjá lyfjastofnunum fyrir lok þessa árs. Myndi það gera fyrirtækjunum kleift að hefja dreifingu á fyrstu skömmtum þess fyrir áramót.

Þá sagði hann að Pfizer og BioNTech stefndu að því að framleiða nokkur hundruð milljón skammta af bóluefninu á fyrstu fimm mánuðum 2021. Áður hefur verið greint frá því að til standi að framleiða 50 milljón skammta af því fyrir lok þessa árs og 1,3 milljarða fyrir lok 2021.

„Ég er fullviss um það að ef allt gengur vel og vel tekst að dreifa bóluefninu þá getum við átt eðlilegt sumar og vetur á næsta ári,“ sagði Sahin við CNN.

Næsta útgáfa nú þegar í þróun

Bóluefnið þarf að geyma við 70 til 80 stiga frost í flutningi og óttast sumir að sú staðreynd eigi eftir að gera dreifingu þess erfiða í framkvæmd. 

Sahin sagði í samtali við CNN að skammur þróunartími bóluefnisins hafi þarna haft áhrif og að þeim hafi ekki gefist tími til að sjá til þess að hægt væri að geyma efnið við betri aðstæður. Hann bætti við að þessi eiginleiki vörunnar væri áfram til skoðunar og að önnur útgáfa bóluefnisins væri í þróun sem verði jafnvel hægt að geyma við stofuhita.

Þróun og prófun bóluefnisins hefur gengið mjög hratt fyrir sig en yfirleitt tekur ferlið fleiri ár. BioN­Tech og Pfizer höfðu áður unnið saman að bólu­efni gegn flensu frá árinu 2018 og ákváðu að fara í sam­starf um fram­leiðslu á bólu­efni gegn Covid-19 í mars á þessu ári.

Geti markað upphafið að endalokunum

Þegar greint var frá bráðabirgðaniðurstöðum prófana á bóluefninu í síðustu viku lýsti Sahin því yfir að vendingin gæti markað byrjunina á endalokum Covid-19 faraldursins.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur undirritað samning við Pfizer um kaup á 200 milljónum skömmtum af umræddu bóluefni með möguleika á 100 milljón skömmtum til viðbótar. Íslendingum er tryggður aðgangur að bóluefninu í gegnum samninginn.

Auk þess eru fleiri bóluefni komin á lokastig prófana sem Ísland hefur sömuleiðis tryggt sér aðgang að.