Forstjóri Landspítalans, Páll Matthíasson, hefur biðlað til starfsfólks í sumarorlofi að huga þegar í stað að því að stytta orlof, ef nokkur kostur er. Fjórða bylgja Covid stendur nú sem hæst og starfar spítalinn á hættustigi og er mönnun mjög víða tæp, segir í tilkynningu frá spítalanum.

Mikið álag er á bráðamóttöku spítalans í Fossvogi. Fólk sem leitar á bráðamóttöku vegna vægari slysa eða veikinda má því gera ráð fyrir langri bið eftir þjónustu en forgangsraðað er eftir bráðleika.

Fólki í eftirliti á Covid-göngudeild hefur fjölgað sem og inniliggjandi sjúklingum. Á sama tíma er fjöldi starfsfólks í einangrun og sóttkví, sem auðveldar ekki mönnun.