Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sást rétt í þessu koma á hækjum til minningarathafnar á Þingvöllum. Þar er þess minnst að hálf öld er liðin frá eldsvoða í ráðherrabústaðnum.

Að sögn Katrínar hefur hún fundið fyrir verk í fætinum frá því að hún fór út að hlaupa fyrir þremur vikum. Við segulómsskoðun kom svo í ljós að hún er með sprungu í lærbeini.

Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra Íslands, Sigríður Björnsdóttir, eiginkona hans, og fjögurra ára dóttursonur þeirra fórust í eldsvoðanum árið 1970.

Ítarlega var fjallað um hörmungaratburðinn í Fréttablaðinu í dag. Þar er meðal annars rætt við Jón Eiríksson jarðfræðing sem var á Þingvöllum þessa nótt og man vel eftir atburðarásinni.

Katrín bauð ráðherrum og þingmönnum að vera viðstadda athöfnina sem hófst klukkan 15.

Fréttin hefur verið uppfærð.