Yfirkjörstjórn í Wisconsin staðfesti í gær sigur Joes Bidens í ríkinu í forsetakosningunum þann 3. Nóvember síðastliðinn. Donald Trump fór fram á endurtalningu í ríkinu eftir að hafa tapað með um 20 þúsund atkvæðum.

Trump bar sigur af hólmi í ríkinu í forsetakosningunum árið 2016 og krafðist því að atkvæði yrðu talin á ný í tveimur fjölmennustu kjördæmum ríkisins, Milwaukee og Dane County.

Þegar öll 800 þúsund atkvæðin sem greidd voru í kjördæmunum höfðu verið talin var niðurstaðan sú að forskot Bidens jókst um 87 atkvæði.

400 milljónir fyrir 87 atkvæði

Samkvæmt lögum Wisconsin er það skilda þess sem fer fram á endurtalningu að borga fyrir ómakið. Reikningurinn sem Trump sat uppi með eftir þessa niðurstöðu hljóðaði upp á þrjár milljónir Bandaríkjadala, eða um 400 milljónir íslenskra króna.

Trump hafði svarið þess eið að véfengja niðurstöðu endurtalningarinnar fyrir dómi áður en niðurstöður lágu fyrir.

„Endurtalningin í Wisconsin snýst ekki um að finna mistök við talningu, hún snýst um að finna fólk sem hefur kosið ólöglega, og það mál verður höfðað eftir að endurtalningunni lýkur, á mánudag eða þriðjudag,“ skrifaði Trump á Twitter um helgina. „Við höfum fundið mörg ólögleg atkvæði.“

Forsetinn viðheldur þeirri orðræðu á Twitter að forsetakosningarnar hafi ekki farið fram með löglegum hætti og að kosningasvindl sé eina útskýring þess að hann hafi ekki sigrað.