Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands vill gjarnan fá að vita hver það var sem gaf honum glæsilega prjónavettlinga á sínum tíma.

Vettlingana hafði Guðni á sér á forsíðumynd Fréttablaðsins í gær og vöktu þeir nokkra athygli. Eru þeir með fána Íslands prjóanaða í mynstrið.

„Forseti á að minnsta kosti fimm vettlingapör sem fólk hefur prjónað og fært honum að gjöf, hvert öðru fallegra. Í svipinn er því miður stolið úr honum hver færði honum þessa fallegu vettlinga en hann myndi svo sannarlega þiggja vitneskju um það,“ svarar Una Sighvatsdóttir, sérfræðingur hjá forsetaembættinu, spurð um uppruna vettlinganna.

„Til gamans þá birtust þeir líklega fyrst opinberlega í mars 2020,“ heldur Una áfram um vettlinganna. „Um gjafir til forseta gildir annars sú megin regla að þær tilheyra embættinu nema þær séu hóflegar að verðmæti og hægt sé að klæðast þeim, eta þær eða drekka.“