Sitjandi forseti Namibíu, Hage Geingob, sigraði á laugardag í kosningum í landinu með yfirburðum eða með um 56,3 prósentum atkvæða. Það er þó lélegasta frammistaða frambjóðanda stjórnarflokksins í nærri þrjá áratugi, að sögn AP fréttastofunnar. Forsetar stjórnarflokksins hafa að jafnaði unnið með yfir 70 prósentum atkvæða í kosningum síðan landið varð sjálfstætt árið 1990.

Kosningarnar fóru fram á miðvikudaginn en úrslit voru tilkynnt um helgina. Um 1,3 milljónir manna af 2,45 milljónum íbúa voru á kjörskrá. Kosningaþátttaka var um 60 prósent.

Tannlæknirinn Panduleni Itula, sem er 62 ára, bauð sig fram sem óháður forsetaframbjóðandi og fékk um 30 prósent atkvæða. Hann sótt fylgi til yngri kjósenda en um helmingur þeirra er atvinnulaus. McHenry Venaani, frambjóðandi Lýðræðishreyfingar fólksins (PDM), fékk 5,3 prósent.

Til þings voru fimmtán flokkar í framboði í fjórtán kjördæmum landsins. Á þingi eru 104 þingsæti sem samanstanda af 96 kjörnum fulltrúum og átta án atkvæðisréttar sem eru tilnefndir af forsetanum. Kosningar eru rafrænar.

Erfitt efnahagsástand


Stjórnarflokkurinn, Alþýðusamtök Suðvestur-Afríku (SWAPO), sem er sósíalískur flokkur, hefur verið með tvo þriðju sæta á þingi landsins frá árinu 1994. SWAPO fékk nú 63 þingsæti, fjórtán færri þingmenn en í síðustu kosningunum. Það er því ljóst að stjórnarflokkurinn heldur stöðu sinni og yfirráðum, þrátt fyrir mjög erfitt efnahagsástand, mikið atvinnuleysi, viðvarandi misskiptingu og versnandi lífskjör. Þá hafa opinberar skuldir og ríkisútgjöld aukist mjög og ríkisstarfsmönnum fjölgað. Umræða um spillingu hefur einnig ýtt undir óánægju almennings.

PDM sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, þrefaldaði fylgi sitt frá síðustu kosningum, og fékk 16,6 prósent atkvæða og sextán þingmenn kjörna. Flokkur landlausra, LPM, sem á rætur í skorti á aðgengi fólks að landi, var í þriðja sæti með 4,9 prósent atkvæða og fjóra þingmenn.

Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa kvartað undan meintu kosningasvindli í forseta- og þingkosningum.

Spilling og mútubrot

WikiLeaks birti nýverið gögn sem benda til þess að embættismenn stjórnarinnar hafi þegið mútur frá fyrirtækjum sem tengjast íslenska sjávarútvegsfyrirtækinu Samherja. Tveir ráðherrar hafa sagt af sér í kjölfarið vegna málsins. Þá birti sjónvarpsstöðin Al Jazeera um helgina þátt sem sýnir rannsóknarblaðamann, sem þóttist vera kínverskur fjárfestir, fara á fund með háttsettum namibískum embættismönnum til að kaupa fiskveiðikvóta í Namibíu. Sjávarútvegsráðherra landsins krafði þar „kínverska fjárfestinn“ um ríflega 24 milljóna króna framlag til handa stjórnarflokknum vegna fyrirhugaðra viðskipta.