Andrzej Duda, forseti Póllands, leiðir forsetakosningarnar eftir fyrstu umferðina á sunnudag. Hlaut hann um 44 prósent sem þýðir að aðra umferð þarf til, milli hans og Rafal Trzakowski, hins frjálslynda borgarstjóra Varsjár, sem fékk um 30 prósent. Mun hún fara fram þann 12. júlí.

Niðurstöðurnar voru að miklu leyti í takt við kannanir, en þar var Duda spáð 42 prósenta fylgi og Trzakowski 30 prósentum.

Fjölmiðlamaðurinn óflokksbundni Szymon Holownia hlaut 13,3 prósent atkvæða og mun ekki taka þátt í seinni umferðinni. Kannanir benda til að meirihluti stuðningsmanna Holownia komi til með að styðja Trzaskowski í seinni umferðinni.

Búist við að Duda beri sigur úr býtum

Búist er við því að Duda beri sigur úr býtum þó ekki með jafn afgerandi hætti og kannanir bentu til í apríl þegar kosningarnar áttu að fara fram en var frestað vegna COVID-19 faraldursins. Voru þá líkur á að hann myndi vinna með meirihluta í fyrri kosningunum.

Duda er fram­bjóðandi stjórn­ar­flokks­ins íhalds­sama Laga og rétt­læt­is. Ef hann tapar má búast við talsverðum breytingum í átt að frjálslyndi í landinu, en Duda hefur meðal annars lýst samkynhneigð sem „hug­mynda­fræði hættu­legri en komm­ún­isma“.

Pólverjar á Íslandi ekki hrifnir af Duda

Pólverjar á Íslandi eru hins vegar ekki jafn hrifnir af honum og landar þeirra í heimalandinu. Því hann fékk aðeins rúm 400 atkvæði í kosningunni sem fór fram í pólska sendiráðinu, eða rúmlega 12 prósent atkvæða.

Þetta er mjög í samræmi við þingkosningarnar sem fóru fram í október síðastliðnum. Lög og réttlæti tryggðu sér hreinan meirihluta á pólska þinginu með 44 prósentum atkvæða. En hér á Íslandi fékk flokkurinn aðeins 17 prósent og endaði í fjórða sæti.

Trza­kowski hefur heitið því að bæta samskipti landsins við ESB.
Mynd/EPA

Trzakowski hlaut flest atkvæði Pólverja á Íslandi

Frjálslyndir frambjóðendur eiga fremur upp á pallborðið hér á Íslandi. Hlaut Trzakowski flest atkvæði, eða 33,5 prósent. Þar á eftir kom sjónvarpsmaðurinn Szymon Holownia með 24 prósent en hann fékk 14 í heildarkosningunni. Þá hefur Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur lýst yfir stuðningi við Trzakowski.

Athygli vekur að Krzysztof Bosak, frambjóðandi Þjóðfylkingar öfgahægrimanna, hlaut langtum betri kosningu hér á landi en í Póllandi, rúmlega 21 prósent á móti tæplega 7. En flokkur hans vill meðal annars taka upp dauðarefsingu að nýju, banna þungunarrof, leyfa byssueign almennings og er á móti réttindum innflytjenda og hinsegin fólks.

Þetta er reyndar einnig í samræmi við úrslit þingkosninganna árið 2019. Þá fengu öfgahægrimenn tæplega 26 prósent á Íslandi og voru næststærstir en fengu aðeins 7 prósent í heimalandinu.

Að lokum ber að nefna að Robert Biedron, frambjóðandi Vinstribandalagsins, fékk tæplega 7 prósent hér á Íslandi en aðeins rúm 2 í heildarkosningunni á sunnudag.