Innlent

Forsetinn fagnar fjölbreytninni

For­seti Ís­lands verður við­staddur opnunar­há­tíð Reykja­vík Pride í kvöld en fjar­verandi Gleði­gönguna um helgina. Hann segist fagna fjöl­breytninni en hann er verndari Sam­takanna '78.

Forsetinn er verndari Samtakanna '78 sem fagna fjörutíu ára afmæli í ár. Fréttablaðið/GVA

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun verða viðstaddur opnunarhátíð Hinsegin daga í Háskólabíói í kvöld. Hann mun hins vegar ekki sjá sér fært að mæta í Gleðigönguna, hápunkt Hinsegin daga, á laugardag þar sem hann verður utan Reykjavíkur. Guðni er verndari Samtakanna '78 sem fagna fjörutíu ára afmæli í ár.

„Fyrir mér var það mjög eðlileg og gleðileg ákvörðun að taka við nafnbótinni og taka þátt í göngunni fyrir tveimur árum,“ segir Guðni í ítarlegu viðtali við GayIceland. „Ég styð mannréttindi, ég styð fjölbreytni, ég styð tjáningarfrelsi, frelsi til ásta, trúfrelsi og frelsið til að trúa ekki yfir höfuð.“

Hann segir að frelsinu fylgi hins vegar ábyrgð. Tjáningarfrelsi þýði til að mynda ekki að fólk geti leyft sér að spúa hatri og þá sérstaklega ekki þegar því er beint gagnvart hópum sem þurft hafa að þola erfiðar raunir í gegnum tíðina, eins og til dæmis hinsegin fólk. „Með það í huga nýt ég þess að taka þátt í göngunni,“ segir Guðni en hann var fyrsti þjóðhöfðinginn til að taka opinberlega þátt í viðburði líkt og Gleðigöngunni.

Orðræðan breyst með tímanum

Guðni segir tímana blessunarlega hafa breyst og minnist þess hvernig orðræðan var þegar hann var drengur. „Ég man eftir því þegar Guðni Baldursson heitinn var fyrsti formaður Samtakanna '78 en eitt af því sem ég minnist úr æsku minni var þegar mér var strítt og ég kallaður „Guðni hommi, Guðni hommi“,“ segir forsetinn.

Orðræða þess tíma hafi verið á þennan veg og bætir hann við að þegar hann var að alast upp hafi hann ekki þekkt neinn sem var samkynhneigður. Það hafi breyst á fullorðinsárunum. „Þegar ég fullorðnaðist eignaðist ég samkynhneigða vini, en ég kalla þá bara vini mína og skilgreini þá ekki eftir kynhneigð þeirra.“

Frelsi ástarinnar og fjölbreytni samfélags

„Ég barðist aldrei opinberlega fyrir réttindum samkynhneigðra áður en ég varð forseti en þegar þú ert í þessari stöðu gerirðu þér grein fyrir ábyrgðinni á herðum þér og möguleikanum til þess að hafa áhrif og taka frumkvæði.“

Það sé stundum erfitt hlutverk og segir hann það sé ekki alltaf hægt að vera bjargvætturinn. Stundum þurfi að taka erfiðar ákvarðanir, en það fylgi starfinu.

„En þegar kemur að réttindum og baráttu fólks innan hinsegin samfélagsins þá trúi ég bara á frelsi ástarinnar og fjölbreytni innan samfélagsins,“ segir Guðni.

Lesa má viðtalið við Guðna í heild hér en það er á ensku.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Jón Gnarr og Frosti deila um opin­bera smánun

Innlent

Hvetja foreldra til að sækja börn í frístund

Innlent

Mikil­vægt að ganga vel frá lausum munum

Auglýsing

Nýjast

May sögð ætla að fresta Brexit-at­kvæða­greiðslu

Fjöldamorðingi dæmdur fyrir 56 morð til viðbótar

Jemt­land í á­tján ára fangelsi fyrir morðið á eigin­konu sinni

Börn birta slúður á lokuðum Insta­gram-reikningum

Bára búin að afhenda Alþingi upptökurnar

Ellert Schram og Albert Guð­munds taka sæti á þingi

Auglýsing