Túnis stendur frammi fyrir stjórnarkreppu eftir að for­seti landsins, Kais Sai­ed, vék for­sætis­ráð­herrann Hichem Mechichi frá störfum og leysti upp þingið í kjöl­far mikilla mót­mæla á sunnu­dag.

Mikil ólga hefur verið í landinu undan­farið vegna bágrar efna­hags­legrar stöðu sem hefur einungis versnað í kjöl­far gífur­legrar aukningar á CO­VID-19 smitum. Á sunnu­dag brutust út ofsa­fengin mót­mæli víða um Túnis þar sem þúsundir manns mót­mæltu Mechichi for­sætis­ráð­herra og íslamska miðju­flokki hans Enna­hda, öskrandi „Burt með ykkur!“ á götum úti.

Kais Sai­ed á­varpaði túnisku þjóðina í sjón­varps­út­sendingu eftir at­burðina:

„Við höfum tekið þessar á­kvarðanir þar til sam­fé­lags­sátt snýr aftur til Túnis og þar til við björgum ríkinu,“ sagði hann áður en hann gekk til liðs við mann­fjöldann.

Mót­mælendur réðust einnig inn á skrif­stofur Enna­hda, brutu tölvur og kveiktu í höfuð­stöðvum þeirra í borginni Touzeur.

„Ég vara hvern þann við sem hefur í hyggju að grípa til vopna, og hvern þann sem hleypir af skoti, her­aflinn mun svara með skotum,“ sagði for­setinn einnig.

Sai­ed til­kynnti að hann myndi stjórna á­samt nýjum for­sætis­ráð­herra og þingið myndi verða leyst frá störfum í 30 daga. Fjöl­margir fögnuðu á­kvörðun for­setans en and­stæðingar hans hafa sakað hann um valda­rán.

Einn mót­mælandi sagði at­burðina vera „hamingju­samasta augna­blikið frá byltingu“ á meðan Rached Ghann­ouchi, for­seti þing­deildar og leið­togi Enna­hda, lýsti á­kvörðun for­setans sem valda­ráni gegn byltingunni og stjórnar­skránni.

„Við lítum svo á að inn­viðir séu enn uppistandandi og stuðnings­menn Enna­hda og túniska þjóðin mun vernda byltinguna,“ sagði Ghann­ouchi.

Byltingin í Túnis árið 2011 var ein kveikjan að arabíska vorinu og leiddi til þess á þá­verandi for­seta Zine El Abidine Ben Ali, sem hafði verið sam­fellt við völd í 24 ár, var steypt af stóli og lýð­ræði komið á í landinu.