Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, er staddur á Íslandi. Hann mætti til fundar við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, um klukkan tíu á Bessastöðum í morgun.

Fjöldi fólks var samankominn fyrir framan Bessastaðastofu við sérstaka móttökuathöfn þegar Steinmeier og fylgdarlið hans renndu í hlað. Þeirra á meðal voru sendinefndir ríkjanna, grunnskólabörn og ríkisstjórn Íslands. Steinmeier gekk línuna og heilsaði viðstöddum áður en hann og Guðni settust inn og ræddu saman.

Elke Büdenbender, eiginkona Steinmeier, er með honum í för í heimsókn þessari og munu þau koma víða við. Á dagskrá Steinmeier í dag er meðal annars heimsókn á Alþingi og fundur með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum á Tjarnargötu.

Síðdegis mun hann síðan formlega opna sýningu í Árbæjarsafni til minningar um Þjóðverja sem fluttu búferlum til Íslands á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina.

Þá mun þýsku forsetahjónin sitja hátíðarkvöldverð ásamt íslensku forsetahjónunum í Hörpu áður en gengið verður til Eldborgarsals tónlistarhússins hvar Víkingur Heiðar Ólafsson mun leika á píanó.

Á morgun heldur dagskráin áfram en þá munu Steinmeier og frú ferðast um Suðurland þar sem þau heimsækja meðal annars Hellisheiðarvirkjun, Lava Center á Hvolsvelli auk þess sem þau munu ferðast með Herjólfi til Vestmannaeyja.

Steinmeier gekk línuna og heilsaði ráðherrum í ríkisstjórn Íslands.
Fréttablaðið/Anton Brink
Elke Büdenbender, eiginkona Steinmeier, er með honum í för.
Fréttablaðið/Anton Brink
Börn af Álftanesi tóku á móti þýsku forsetahjónunum. Hin síðarnefndu munu koma víða við í heimsókn sinni á Fróni.
Fréttablaðið/Anton Brink