Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, á í vök að verjast vegna ásakana um stórfellda spillingu sem hafa leitt til ólgu innan stjórnarflokksins, Afríska þjóðarráðsins.

Sjálfstæð rannsóknarnefnd sem skipuð var af þingi Suður-Afríku sakaði Ramaphosa um „alvarlegt“ misferli“ í skýrslu sem hún skilaði í lok nóvember. Rannsóknina má rekja til þess er brotist var inn á búgarð Ramaphosa fyrir tæpum þremur árum og andvirði margra milljarða króna í reiðufé stolið þaðan. Í kjölfarið hefur Ramaphosa verið sakaður um að hafa undir höndum óuppgefinn erlendan gjaldeyri, um að hafa stundað peningaþvott og um að hafa misnotað stöðu sína með því að skipa meðlimum úr lífvarðasveit forsetaembættisins að hafa upp á þjófunum og greiða þeim fyrir þagmælsku þeirra um málið.

Í gær voru orðrómar á kreiki um að Ramaphosa hygðist segja af sér vegna málsins. Flokkssystkini hans segjast nú vera að ræða stöðu hans en bandamenn hans innan flokksins fylktu liði að baki honum í dag. Ef Ramaphosa viðheldur stuðningi innan Afríska þjóðarráðsins er ólíklegt að hægt verði að leysa hann úr embætti vegna yfirburðastöðu flokksins á þinginu.

Afríska þjóðarráðið hefur stjórnað Suður-Afríku frá endalokum kynþáttaaðskilnaðarstefnunnar árið 1994 en ráðamenn flokksins hafa ítrekað sætt ásökunum um spillingu á síðustu árum. Jacob Zuma, forveri Ramaphosa, var þvingaður til afsagnar vegna spillingarásakana árið 2018 og var dæmdur í fangelsi í fyrra.