„Við forsætisráðherra ræddum um að við myndum ráða ráðum okkar undir lok þessarar viku og sjá hver staðan er og taka svo næstu skref í framhaldi af því,“ segir forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, um viðræður stjórnar­flokkanna um áframhaldandi stjórnarsamstarf.

Aðspurður segist Guðni ekki hafa rætt við aðra stjórnmálaleiðtoga en formenn stjórnarflokkanna þriggja.

„Ríkisstjórnin hélt sínum meirihluta og þurfti ekki að biðjast lausnar og meðan svo er situr þessi ríkisstjórn áfram og það er á þeim forsendum sem leiðtogar flokkanna sem að henni standa ræða saman um framhaldið og svo sjáum við bara hvað setur.“

Formennirnir þrír funduðu minnst tvisvar í gær.

„Við gefum þingflokkum okkar skýrslu í lok vikunnar til að átta okkur á því hvort við viljum taka viðræðurnar á næsta stig,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Efni viðræðna þeirra séu áherslumál flokkanna og línur frá hverjum þingflokki.