„Heiður þeim sem heiður ber. Að sama skapi er þó engum til góðs að skapa fals­mynd eða þegja þunnu hljóði þegar ó­rétt­læti og grá­lyndi blasir við,“ er meðal þess sem Guðni Th. Jóhannes­son, for­seti Ís­lands, sagði þegar hann á­varpaði starfs­fólk ál­versins í Straums­vík á föstu­daginn. Næsta víst er að þar vísar Guðni til Sam­herja­málsins.

„Ýmsar sögur eru til af er­lendum stór­risum, sem hösluðu sér völl á nýjum stað og fóru of­fari, léku inn­fædda grátt, með blekkingum, svikum og mútum. Þannig fram­ferði er auð­vitað ó­verjandi,“ sagði for­seti Ís­lands.

Hann lagði á það á­herslu að Ís­lendingar yrðu að geta borið höfuðið hátt í út­löndum. „Ekki síst við sem höfum notið trausts til trúnaðar­starfa fyrir land og þjóð. Við viljum eiga okkar flagg­skip og lofa þá sem þar eru á stjórn­palli, fólk í heimi menningar og mennta, í­þrótta og lista, fólk í heimi há­tækni og ný­sköpunar, fólk í heimi iðnaðar og út­vegs.“

„Lengi höfum við stært okkur af for­ystu­hlut­verki til sjávar, þekkingu okkar og reynslu og vilja til að vinna með öðrum, öllum til hags­bóta. Þetta hef ég gert ný­lega, svo dæmi séu tekin, í heim­sóknum ytra og þegar ég tók á móti nýjum sendi­herra Namibíu eins og lesa má í frétt á heima­síðu em­bættisins: „Loks var rætt um fisk­veiðar undan ströndum Namibíu og fram­tíðar­horfur þar í þágu heima­manna“, og var þá vísað til þróunar­sam­vinnu þar ytra.“

Þá sagði Guðni að mikil­vægt væri fyrir þá sem komi fram í þágu Ís­lands, að­sjá í verki að unnið sé í heilindum í út­vegi og öðrum greinum ís­lensks at­vinnu­lífs. „Þeirri heildar­mynd er vel hægt að halda við, sé vilji fyrir hendi.“