Guðni Th. Jóhannes­son, for­seti Ís­lands, sendi í dag sam­úðar­kveðju sína og ís­lensku þjóðarinnar til Michel Aoun, for­seta Líbanons, vegna sprengingarinnar sem varð í Beirút, höfuð­borg landsins, í gær.

Þjóðar­sorg hefur verið lýst yfir í landinu vegna sprengingarinnar sem varð á hafnar­svæðinu í borginni í gær og þá verður neyðar­stig í gildi næstu tvær vikurnar. Að minnsta kosti hundrað létust og rúm­lega fjögur þúsund særðust í sprengingunni.

„For­seti sagði að hugur lands­manna væri nú með þeim sem söknuðu ást­vina og hefðu misst heimili vegna þessa skelfi­lega at­burðar og minnti á að ís­lensk stjórn­völd væru fús til að út­vega að­stoð við björgunar­að­gerðir,“ segir í til­kynningu frá skrif­stofu for­seta Ís­lands.