Indversku forsetjahjónin, Ram Nath Kovind, forseti, og kona hans, Savita Kovind, eru komin til landsins. Samkvæmt frétt RÚV lentu þau á Keflavíkurflugvelli skömmu eftir fimm í morgun.

Forsetinn er í stuttri opinberri heimsókn og með honum fylgir sendinefnd forseta og sérstök sendinefnd Indversk-íslensku viðskiptasamtakanna (IIBA). Viðskiptaviðræður eru efst á baugi í þessari heimsókn.

Forsetinn fundar með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Bessastöðum á morgun. Þar verður samband ríkjanna tveggja rætt og skrifað verður undir samkomulög milli ráðuneyta landanna.

Að því loknu flytur forsetinn opinn fyrirlestur í Háskóla Íslands, sem ber yfirskriftina Indland og Ísland fyrir græna plánetu.

Á miðvikudag heimsækir hann Þingvelli og fundar með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra.

Ísland er fyrsta norræna landið sem Kovind heimsækir sem forseti.

Það verða engar fastar lokanir á götum vegna heimsóknarinnar eins og þegar Mike Pence kom í síðustu viku en hann fær samt lögreglufylgd hvert sem hann fer, líkt og aðrir þjóðhöfðingjar sem heimsækja landið, sem hefur í för með sér einhverjar truflanir á umferð.

Ram Nath Kovind var valinn í forsetaembættið árið 2017 af indverska þinginu, en hann var áður ríkisstjóri í Bihar og þingmaður. Hann er úr BJP, sama flokki og forsætisráðherrann Narendra Modi, en flokkurinn er íhaldssamur og aðhyllist hindúa-þjóðernishyggju.

Kovind tilheyrir stétt dalíta, en stéttin er á neðsta þrepi hins forna indverska stéttakerfis og hefur haft minni réttindi en efri stéttir í gegnum tíðina.

Forsetaembættið á Indlandi hefur fyrst og fremst táknrænt hlutverk, líkt og á Íslandi.