Sauli Niinistö, forseti Finnlands, flutti ávarp við sænska ríkisþingið í dag og stóð fyrir svörum sænskra þingmanna. Spurningarnar snerust aðallega um hugsanlega inngöngu bæði Finnlands og Svíþjóðar í Atlantshafsbandalagið, en bæði löndin hafa formlega sótt um aðild að hernaðarbandalaginu vegna aukinna áhyggja af öryggismálum í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Heimsókn Niinistö til sænska þingsins er liður í opinberri heimsókn þar sem hann hefur meðal annars hitt Karl 16. Gústaf Svíakonung og flutt ávarp með honum. „Öryggisstefnur okkar hafa lengi verið áþekkar og jafnvel núna, þegar aðstæður krefjast þess, stígum við skrefin saman,“ sagði Niinistö í ávarpi sínu með konungnum.

Í ávarpinu tjáði Niinistö sig um andstöðu Tyrkja gegn inngöngu Norðurlandanna tveggja í NATO. Andstaða Receps Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseta við aðilda er helsti þrándurinn í götu þeirra, en hann segir löndin vera „gistiheimili“ fyrir hryðjuverkastarfsemi. Þar virðist hann vísa til samfélaga Kúrda í Svíþjóð og Finnlandi, sem Erdoğan vænir um að hafa tengsl við Verkalýðsflokk Kúrdistan (PKK), sem hefur um árabil átt í hernaðarátökum við tyrknesk yfirvöld.

„Yfirlýsingar frá Tyrklandi hafa breyst og harðnað mjög hratt,“ sagði Niinistö við sænska þingið. „Ég er þó viss um að við getum leyst úr stöðunni með uppbyggilegum samræðum.“

Niinistö talaði við Vladímír Pútín, forseta Rússlands, í síma fyrir nokkrum dögum og greindi honum frá fyrirætlunum Finna um að sækja um NATO-aðild. Rússar hafa varað Finna við því að ganga í bandalagið, en Niinistö sagðist þó hafa verið hissa á því hvað Pútín tók fréttunum af mikilli rósemi. „Pútín var mjög kúl yfir þessu,“ sagði Niinistö.