Kjörtímabil forseta Íslands verður lengt í sex ár en hámark sett á samfellda setu á forsetastóli, samkvæmt drögum að frumvarpi um breytingar á stjórnarskrá sem forsætisráðuneytið birti í samráðsgátt stjórnvalda í gær. Frumvarpið er samið af Skúla Magnússyni, héraðsdómara og dósent, í samráði við formenn stjórnmálaflokkanna.

Frestur til að senda umsagnir um málið rennur út um miðjan júlí.

Í frumvarpsdrögunum er miðað við að forseti geti aðeins setið samfellt tvö kjörtímabil á Bessastöðum, eða í alls tólf ár, miðað við sex ára kjörtímabil.

Þurfi að hafa meðmæli 2.5 prósent kosningabærra manna

Lagt er til að forsetaefni þurfi að hafa meðmæli að lágmarki 2,5 prósenta kosningabærra manna en miðað við fjölda á kjörskrá fyrir nýafstaðnar kosningar þyrfti forsetaefni meðmæli frá um 6.300 einstaklingum til að geta boðið sig fram.

Töluverðar breytingar eru einnig lagðar til á ákvæðum um hlutverk forseta, að mestu leyti til samræmis við ríkjandi framkvæmd. Til að mynda verði formleg heimild forseta til að fella niður saksókn felld brott og hlutverk forseta við stjórnarmyndun skýrt og fært nær ríkjandi framkvæmd eins og það er orðað í frumvarpinu. Lagt er til að Alþingi fái aukið forræði á starfi sínu og hlutverk forseta við setningu Alþingis og frestun á fundum þess verði takmarkað. Þá er lagt til að Alþingi geti fellt úr gildi lög sem forseti hefur synjað staðfestingar samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar til að afstýra þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að lokum er lagt til að forseti verði ekki lengur ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum, nema þeim sem hann framkvæmir að tillögu ráðherra og ráðherra ber ábyrgð á.

Kveðið á um breytingar á ákvæðum um ráðherra og ríkisstjórn

Í frumvarpinu er einnig kveðið á um breytingar á ákvæðum um ráðherra og ríkisstjórn. Ákvæðum um ráðherraábyrgð er breytt og kveðið á um að Alþingi geti falið ríkissaksóknara að fara með ákæruvald í stað þess að Alþingi sjálft gefi út ákæru. Lagt er til að ekki verði lengur fjallað um Landsdóm í stjórnarskrá heldur verði fjallað um meðferð mála um ráðherraábyrgð í almennum lögum. Í tilkynningu sem fylgir málinu í samráðsgáttinni kemur fram að unnið sé að endurskoðun laga um ráðherraábyrgð og Landsdóm og ráðgert sé að kynna afrakstur þeirrar endurskoðunar í haust.

Forystuhlutverk forsætisráðherra er sérstaklega orðað í frumvarpsdrögunum og ákvæði um ríkisstjórnarfundi gerð ítarlegri. Í gildandi stjórnarskrá er forsætisráðherra ekki getið að öðru leyti en því að hann stýri ráðherrafundum.

Mælt fyrir um vantraust á ráðherra og ríkisstjórn

Að lokum er í frumvarpsdrögunum mælt fyrir um vantraust á ráðherra og ríkisstjórn og áhrif þess en gildandi stjórnarskrá hefur ekki að geyma ákvæði þar að lútandi. Lagt er til að Alþingi geti lýst vantrausti á tiltekinn ráðherra og beri honum að láta af embætti strax í kjölfarið. Samþykki Alþingi hins vegar að lýsa vantrausti á forsætisráðherra ber honum að biðjast lausnar fyrir sig og ríkisstjórnina en sitja áfram þar til ný ríkisstjórn hefur verið skipuð.

Formenn flokkanna hafa fundað reglulega á kjörtímabilinu undir forystu forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá. Þegar hafa verið birt drög að frumvörpum um íslenska tungu, umhverfi og auðlindir.