„Við viljum að sjálfsögðu fara mjög hægt í sakirnar í vaxtahækkunum af því að þær hafa ríka tilhneigingu til að auka á verðbólguna þegar auknum fjármagnskostnaði er velt út í verðlagið,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, um þá tillögu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að Seðlabankinn ráðist í enn frekari stýrivaxtahækkanir.
Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) skilaði í gær skýrslu um stöðu efnahagsmála á Íslandi.
„Við teljum mikilvægt að Seðlabankinn hækki stýrivexti frekar og ástæðan fyrir því er að verðbólguvæntingar hafa verið töluvert hærri en verðbólgumarkmið Seðlabankans en þær hafa verið í kringum fimm prósent,“ segir segir Iva Petrova, yfirmaður sendinefndar AGS, í Markaðnum í dag.
Drífa bendir hins vegar á að AGS telji húsnæðismál stærsta viðfangsefnið. „Þar hafa þau væntanlega verið að hlusta á okkur og fleiri.“
„Vel útfærðar og samræmdar aðgerðir eru nauðsynlegar til að takast á við húsnæðisverðssveifluna,“ segir AGS í skýrslunni.
Þá segir AGS komandi kjarasamninga áhyggjuefni.
„Ég held að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætti að láta aðilum vinnumarkaðarins það eftir að semja um kaup og kjör,“ svarar Drífa um þetta atriði.
Að sögn Drífu er húsnæðiskostnaður sífellt meira íþyngjandi.
„Þannig að það fer líka svolítið eftir því hvernig stjórnvöld grípa inn í húsnæðismarkaðinn hvernig kjarasamningar spilast,“ bendir forseti ASÍ á.