Ólafur Arnarson
Fimmtudagur 24. nóvember 2022
05.00 GMT

Þann 5. apríl síðastliðinn sendi Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, bréf til Fjármálaráðuneytisins og stjórnar Lindarhvols, félags sem ráðuneytið setti á fót til að halda utan um og selja eignir sem runnu til ríkisins sem stöðugleikaframlag frá slitabúum föllnu bankanna, og upplýsti að forsætisnefnd hefði samþykkt að afhenda fjölmiðlum greinargerð sem Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi, um starfsemi Lindarhvols skilaði til alþingis í júlí 2018, og afhending færi fram 25. apríl kl. 12.

Forsaga málsins var sú að Jóhann Óli Eiðsson, blaðamaður, hafði óskað eftir að fá greinargerðina afhenta. Þann 28. apríl 2021 sendi Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi forseti Alþingis, stjórn Lindarhvols bréf og upplýsir að forsætisnefnd hyggist veita Jóhanni Óla aðgang að greinargerðinni og óskar eftir því að Lindarhvoll „lýsi afstöðu sinni til þess hvort greinargerðin geymi upplýsingar um fjárhagsmálefni einstaklinga eða fyrirtækja eða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 9. gr. upplýsingalaga.“

Þrátt fyrir ítrekuð erindi frá forseta Alþingis tók stjórn Lindarhvols og fjármálaráðuneytið enga afstöðu til þeirra atriða sem óskað var eftir heldur lögðust alfarið gegn því að greinargerðin yrði birt með vegna þess að óheimilt væri með öllu að birta hana. Forsætisnefnd leitaði eftir lögfræðiáliti sérfróðs lögmanns hjá Magna-lögmönnum sem komst að þeirri niðurstöðu að andstaða ráðuneytisins við birtingu byggði ekki á haldbærum lögfræðirökum. Við svo búið var ráðuneytið upplýst um fyrirhugaða birtingu.

Forseti Alþingis tekur u-beygju

20. apríl bárust mótmæli frá bæði fjármálaráðuneytinu og Ríkisendurskoðun við fyrirhugaðri birtingu. Engin ný rök voru færð fram heldur voru endurtekin gömlu rökin, sem forsætisnefnd hafði þegar úrskurðað að væru léttvæg andspænis lögfræðiálitinu frá Magna.

Engu að síður tók Birgir Ármannsson þá ákvörðun að veita ekki aðgengi að greinargerðinni. Hafði hann þó sjálfur gert tillöguna um það til forsætisnefndarinnar.

Í umræðu undanfarinna vikna hefur mikið verið rætt um mikilvægi gagnsæis og jafnræðis við sölu ríkiseigna. Fjármálaráðherra hefur sérstaklega mælt fyrir um nauðsyn þess að tryggja að ekkert sé í skugganum og þar með hulið leyndarhyggju þegar kemur að meðhöndlun og ráðstöfun ríkiseigna. Þá hafa allir formenn ríkisstjórnarflokkana lýst því yfir opinberlega að öll gögn um sölu ríkiseigna skuli vera opinber.

Fjármálaráðherra birti nýlega lista yfir kaupendur í hlutafjárútboði Íslandsbanka, þvert á lögfræðiálit Bankasýslu ríkisins, vilja og ráðleggingar Bankasýslunnar og almennra hefða í fagfjárfestaútboði.

Greinargerðin sem deilt er um er mjög gagnrýnin á marga þætti í starfsemi Lindarhvols. Í grundvallaratriðum stangast hún á við skýrslu sem Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi skilaði til Alþingis um starfsemi Lindarhvols en sú skýrsla fer fögrum orðum um starfsemi og umgjörð félagsins.

Í byrjun næsta árs verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur mál félagsins Frigus II á hendur Lindarhvoli. Tilefni málshöfðunarinnar er útboð og sala Lindarhvols á hlut ríkisins í Klakka haustið 2016. Um var að ræða sölu á hlutafé og samhangandi kröfum í Klakka.

Stjórn Lindarhvols, sem var skúffufélag í Fjármálaráðuneytinu, hafði falið Íslögum, lögfræðistofu í eigu lögmannsins Steinars Þórs Guðgeirssonar, að sjá um rekstur félagsins. Steinar var jafnframt stjórnarmaður í Klakka, auk þess að sinna margvíslegum störfum og verkefnum á vegum Lindarhvols, Fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands.

Stjórn Lindarhvols hafði látið Deloitte meta virði hlutar ríkisins í Klakka og var niðurstaðan úr því verðmati tæpur milljarður.

Helmingsafsláttur á ríkiseign

Steinari Guðgeirssyni var falið að sjá um sölu hlutarins í Klakka þrátt fyrir að hann væri þá stjórnarmaður í félaginu. Afar takmarkaðar upplýsingar voru veittar um eignina í söluferlinu þrátt fyrir að um verulega flókna eign væri að ræða. Kröfur á Klakka skiptust í misjafnlega verðmæta flokka en það mun ekki hafa komið fram í söluferlinu. Síðar kom í ljós að aðilar sem hugðust bjóða í eignina treystu sér ekki til þess vegna skorts á upplýsingum.

Eignin var auglýst til sölu í smáauglýsingum DV og á heimasíðu Lindarhvols.

Þegar upp var staðið nam söluverðmæti eignarhlutarins í Klakka 505 milljónum króna. Þetta felur í sér u.þ.b. 50 prósenta afslátt frá því verði sem stjórn Lindarhvols og Steinari Þór var kunnugt um að væri verðmat Deloitte á hlutnum. Þessu til viðbótar voru eignir Klakka færðar upp um 15 prósent tveimur mánuðum eftir undirritun kaupsamnings.

Kaupendur að hlut ríkisins í Klakka voru nátengdir fyrirtækinu. Forstjóri Klakka undirritaði kauptilboðið. Seljandinn, sem tók við tilboðum á ódulkóðuðu rafrænu formi, var stjórnarmaður í Klakka. Þegar salan fór fram lá fyrir fjárhagsuppgjör félagsins sem forstjóri og stjórn Klakka höfðu undir höndum en ekki aðrir vegna þess að það hafði ekki verið gert opinbert.

Uppgjörið sýndi mun betri afkomu en aðrir en stjórnendur Klakka hefðu mátt gera ráð fyrir eða rúmlega 600 milljón króna hagnað. Í þeim málaferlum sem síðan hafa sprottið hefur Steinar tekið að sér að vera lögmaður Lindarhvols. Ríkislögmaður ætti að sinna því en í undanteknwingartilfellum má kalla til utanaðkomandi lögmenn, en til þess þarf sérstakt leyfi frá viðkomandi ráðuneyti samkvæmt lögum um ríkislögmann. Þessi heimild mun undir eðlilegum kringumstæðum einungis vera notuð þegar ríkislögmaður er vanhæfur í málum, sem ekki mun eiga við í þessu tilfelli.

Steinar Þór Guðgeirsson er var stjórnarmaður í Klakka og seldi félagi á vegum forstjóra Klakka ríkiseign á hálfvirði í útboði sem nú ratar fyrir dómstóla.
Fréttablaðið/Gunnar V. Andrésson

Tvískinnungur ráðuneytis

Sigurður Valtýsson, forsvarsmaður Frigusar II, segir Lindarhvol hafa gert allt til að koma í veg fyrir sjálfsagða afhendingu gagna í söluferli á ríkiseign frá því að söluferlinu lauk, tapað 10 úrskurðum hjá Úrskurðarnefnd um upplýsingamál og enn séu ekki öll kurl komin til grafar.

Í ljósi þess að óeðlilegt þykir að starfsmenn miðlunar í Íslandsbanka hafi keypt í nýliðnu útboði, segist Sigurður velta fyrir sér hvað megi þá segja um þá staðreynd að stjórnarmaður Klakka hafi verið umsjónarmaður með útboði á hlut ríkisins í félaginu og haldið leyndum fyrirliggjandi gögnum um hið selda og mælt svo með því að tilboði forstjóra Klakka yrði tekið.

Harðort bréf frá Sigurði Þórðarsyni um rangfærslur í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem kom út í maí 2020, liggur hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Málið hefur verið hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd frá því á síðasta kjörtímabili og Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að fyrrverandi stjórnarmenn í Lindarhvoli hafi neitað að koma fyrir nefndina nema með ákveðnum skilyrðum.

Málshöfðun Frigusar II snýr meðal annars að því að hefðbundin vinnubrögð hafi ekki verið viðhöfð við söluna. Til dæmis hafi tilboð ekki verið opnuð í viðurvist bjóðenda.

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 12. nóvember 2016 undir yfirskriftinni „Gengið á svig við meginreglur við sölu ríkiseigna“ er haft eftir forstjóra Ríkiskaupa að þrátt fyrir að ekki sé skylt að styðjast við lög um opinber innkaup við sölu ríkiseigna að þá séu þau „sá vettvangur sem tryggir gagnsæi og jafnræði milli bjóðenda“.

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, segist ekki ætla að tjá sig um málið að svo stöddu. „Málið er enn til umfjöllunar á vettvangi forsætisnefndar og á meðan ætla ég ekki að fara út í umræður á opinberum vettvangi um einstaka þætti þess.“

Oddný Harðardóttir, 2. varaforseti Alþingis, segir það vera sína skoðun að eftir að forsætisnefnd samþykkti að veita aðgang að greinargerð Sigurðar Þórðarsonar hafi ekkert nýtt komið fram sem ætti að koma í veg fyrir að sú ákvörðun standi og greinargerðin opinberuð.

Athugasemdir