Bókasjóður forsetaembættisins, Tónlistarsjóður Hörpu fyrir ungt fólk, Samtök gegn kynferðislegu ofbeldi og Gamli bærinn í Múlakoti eru meðal þeirra 50 sjóða sem hafa aldrei skilað ársreikningi til Ríkisendurskoðunar þrátt fyrir árvissar ítrekanir þar um.

Bókasjóðurinn var settur á laggirnar 1969 og hafa því fimm forsetar dregið lappirnar við að skila ársreikningi en hann var stofnaður í tíð Kristjáns Eldjárns. Ekki er vitað hver starfsemi sjóðsins er.

Nú í ársbyrjun höfðu 458 sjóðir og stofnanir skilað Ríkisendurskoðun ársreikningi fyrir rekstrarárið en skilafrestur var til 30. júní 2021.

Alls bar 702 sjóðum og stofnunum að skila ársreikningi fyrir rekstrarárið 2020 og höfðu því rúmlega 65 prósent ársreikninga borist sex mánuðum eftir eindaga skila. Alls höfðu 114 sjóðir hvorki tekjur né gjöld á árinu.

Elsti sjóðurinn sem skilar ársreikningi hvert ár er Reynislegat frá árinu 1662 og er virkur í þeim skilningi að hann er á skrá og skilar sínum reikningi. Sjóðurinn á eignir upp á rúmlega 370 þúsund krónur.

Birgitta Arngrímsdóttir, lögfræðingur hjá Ríkisendurskoðun, segir að skilahlutfallið sé yfirleitt í kringum 60 til 70 prósent.

Birgitta segir að Ríkisendurskoðun hafi fá verkfæri til að beita gegn þeim sem skila ekki ársreikningum eftir reglunum.

„Það er ákveðið úrræðaleysi gagnvart þessum fimmtíu sjóðum. Við erum ekki með nein viðurlög og getum ekki lagt á dagsektir eða þess háttar til að knýja fram skil eins og er í lögum um sjóði og sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri. Þar erum við með betri verkfæri,“ segir Birgitta.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er tekið fram að árlega séu sjóðir og stofnanir sem ekki hafa verið starfandi um lengri eða skemmri tíma, lagðir niður. Það sé þó ekki gert nema eftir ákveðna forvinnu. Ganga þurfi úr skugga um hvort einhver eigi hagsmuna að gæta eða andmælarétt áður en sýslumaður tekur endanlega og einhliða ákvörðun um niðurlagningu.