Austurríkismenn ganga að kjörborðum í dag til að kjósa sér forseta. Núverandi forseti landsins, græninginn Alexander Van der Bellen, er í framboði til annars sex ára kjörtímabils, en hann var upphaflega kjörinn árið 2016.

Forsetakosningarnar fyrir sex árum þóttu æsispennandi og Van der Bellen var þar kjörinn með sáralitlu forskoti á frambjóðanda austurríska Frelsisflokksins, Norbert Hofer, í seinni kosningaumferð. Hæstiréttur landsins ógilti kosningarnar eftir aðfinnslur frá Frelsisflokknum en þegar seinni umferðin var endurtekin vann Van der Bellen aftur með auknum mun.

Í ár er ekki búist við svo tvísýnum kosningum. Skoðanakannanir benda til þess að Van der Bellen eigi auðveldan sigur vísan og gæti hlotið hreinan meirihluta atkvæða í fyrstu umferð. Hann nýtur stuðnings allra helstu stjórnmálaflokka landsins nema Frelsisflokksins, sem styður framboð Walters Rosenkranz.

Meðal annarra frambjóðenda má nefna pönkrokkarann Dominik Wlazny, sem er í framboði fyrir Bjórflokkinn svokallaða. Van der Bellen komst svo að orði á kosningafundi á föstudaginn að helsti keppinautur hans í dag yrði sófinn.

Forsetaembætti Austurríkis er að mestu táknrænt og valdalaust. Van der Bellen hefur þó þurft að grípa inn í austurrísk stjórnmál upp að vissu marki á kjörtímabilinu. Árið 2019 skipaði forsetinn utanþingsstjórn með Brigitte Bierlein sem kanslara eftir að stjórn Sebastians Kurz féll fyrir vantrauststillögu á þingi. Sú stjórn sat í um hálft ár, þar til ný stjórn var mynduð í kjölfar kosninga.