Jill Biden, for­seta­frú Banda­ríkjanna, heim­sótti ó­vænt Úkraínu fyrr í dag. Hún kom ó­vænt við í skóla í Uz­hhor­od, sem er lítil borg í suð­vestur horni Úkraínu. CNN greinir frá þessu.

Í skólanum hitti hún Ol­enu Zelenska, for­seta­frú Úkraínu, en hún hefur ekki sést opin­ber­lega síðan stríðið hófst í Úkraínu þann 24. febrúar síðast­liðinn. Skólinn sem þær hittust í er í dag notaður sem bráða­birgða­heimili fyrir fólk sem hefur þurft að flýja heimilin sín.

„Ég vildi koma á mæðra­degi,“ sagði Biden við Zelenska. Þær tvær hafa verið í bréfa­sam­skiptum síðast­liðnu vikur.

Zelenska þakkaði Biden fyrir þetta hug­rakka verk, að fara til Úkraínu. „Við skiljum hvað þarf fyrir for­seta­frú Banda­ríkjanna til að koma hingað í stríði þegar hernaðar­að­gerðir eiga sér stað á hverjum degi, þar sem sí­renur heyrast á hverjum degi, jafn­vel í dag,“ sagði Zelenska við Biden.

Jill Biden er á þriðja degi af fjögurra daga ferð um Evrópu. Hún hefur verið að heim­sækja fjöl­skyldur sem hafa flúið Úkraínu til Rúmeníu og Slóvakíu. En Uz­hhor­od liggur við landa­mæri Úkraínu og Slóvakíu.

Hátt settir Banda­rískir em­bættis­menn hafa heim­sótt Úkraínu á síðustu vikum. For­seti Öldunga­deildar Banda­ríkja­þings Nan­cy Pelosi heim­sótti Úkraínu síðustu helgi, utan­ríkis­ráð­herra og varnar­mála­ráð­herra Banda­ríkjanna heim­sóttu báðir Úkraínu í síðasta mánuði.