Magnús Ing­berg Jóns­son hefur á­kveðið að draga fram­boð sitt til for­seta Ís­lands til baka en hann stað­festir þetta í sam­tali við Frétta­blaðið. Hann var einn af sex karl­mönnum sem stefndu á að bjóða sig fram til for­seta Ís­lands í sumar. „Söfnunin sem fór af stað um daginn, þegar ég hóf framboðið, hún gengur ekki vel.“

„Miðað við gang mála í þessari raf­rænu söfnun þar sem ég ætlaði ekki að safna neinu skrif­legu nema það hafi sér­stak­lega verið óskað eftir því af við­komandi aðilum, að þá er í rauninni þessu fram­boði sjálf­lokið,“ segir Magnús en undir­skrifta­söfnuninni lýkur næsta þriðju­dag.

Magnús bauð sig einnig fram til for­seta árið 2016 og sagðist hann þá sem for­seti ætla að leggja á­herslu á að landið verði ekki stjórn­laust vegna pólitískra á­taka. Hann dró þó fram­boðið til baka þar sem 300 undir­skriftir vantaði á lista hjá honum.

„Ég var að þessu fyrir ykkur en ekki fyrir sjálfan mig þannig ég hafði engu að tapa. En ég hef nóg að gera og á­gætar tekjur þannig þetta er ekkert vanda­mál af minni hálfu. En þið kannski finnið bara ein­hvern annan sem þið treystið og er til­búinn til að færa lýð­ræðið beint til þjóðarinnar,“ segir Magnús.

Nú eru fimm karl­menn í fram­boði en þeir eru Guðni Th. Jóhannes­son, sitjandi for­seti, Guð­mundur Frank­lín Jóns­son, Axel Pétur Axels­son, Arn­grímur Frið­rik Páls­son og Kristján Örn Elías­son. Guðni hefur þegar safnað nægum undir­skrifum en lág­marks­fjöldi undir­skrifta er 1500.