Tíu manns greindust með kóróna­veiruna innan­lands um helgina en allir voru þeir í sótt­kví við greiningu. Þar sem allir voru í sótt­kví hefur lítið þurft að rekja smitin en þau voru flest á suð­vestur­horninu. Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir að um sé að ræða mjög góð tíðindi.

„Vonandi verður það svona á­fram, að við förum að greina bara sem fæsta utan sótt­kvíar. Það er merki um að við séum að ná utan um þetta,“ segir Þór­ólfur í sam­tali við Frétta­blaðið en í vikunni verður haldið á­fram með skimanir hjá þeim sem eru ekki með ein­kenni, líkt og gert var í síðustu viku.

Ekki laus við veiruna

Þór­ólfur skilaði í gær minnis­blaði til Svan­dísar Svavars­dóttur heil­brigðis­ráð­herra um breytingar í nú­gildandi sam­komu­tak­mörkunum en hann vill lítið gefa upp um hvað felst í hans til­lögum. Að­spurður um hvort von sé á til­slökunum segir Þór­ólfur að það sé mikil­vægt að fara var­lega í slíkt.

„Ég held að við séum ekki laus við veiruna úr sam­fé­laginu, hún er enn þá þarna úti, en okkur hefur tekist með rakningu og þeim að­gerðum sem eru í gangi að svona ná utan um það og dagarnir núna næstu munu sýna það frekar,“ segir Þór­ólfur.

Vel tekist að ná utan um landamærin

Hann vísar enn fremur til þess að vel hafi tekist að ná utan um smit á landa­mærunum þar sem fáir eru nú að greinast. „Þannig að við höfum allar for­sendur til þess á næstunni að slaka enn frekar á en ég er ekki viss um að það sé rétt að gera það akkúrat núna,“ segir Þór­ólfur.

Eins og staðan er í dag er 20 manna samkomubann á landinu öllu, grímuskylda og tveggja metra fjarlægðarregla milli einstaklinga. Ný reglugerð um aðgerðir á landamærunum tók gildi fyrir viku síðan þar sem farþegar frá hááhættusvæðum eru meðal annars skyldaðir í sóttkvíarhús.