Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir að þegar aflaheimildir safnast á sífellt færri hendur séu forsendur fyrir óbreyttu veiðigjaldi brostnar.

„Jafnvel þó það séu fyrirtæki á markaði og þar af leiðandi með breitt eignarhald, þá eru forsendurnar fyrir því að vinna að því að tryggja að veiðigjöldin séu ekki of íþyngjandi farnar,“ segir ráðherrann sem verður til viðtals í Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld.

Sigurður Ingi segir að þegar forsendur bresta þurfi að taka upp annars konar gjaldtöku af auðlindanotkun, annars vegar í formi veiðigjalda og hins vegar með viðbótar skattþrepi.

„Þannig að þegar vel gengur borgi þessi atvinnugrein, sem og aðrar sem nýta auðlindir landsins þegar vel gengur, meira til ríkisins,“ segir Sigurður Ingi.

„Önnur leið er að stærstu fyrirtækin séu ýmist á markaði eða í samvinnuformi.“

Hér fyrir neðan má sjá klippu úr viðtalinu við Sigurð Inga en hægt verður að horfa á viðtalið í heild sinni á Fréttavaktinni í kvöld klukkan 18:30.