Starfsfólki forsætisráðuneytisins hefur fjölgað um þriðjung frá 2017 til 2020. Kynjahlutfallið hefur einnig skekkst nokkuð. Árið 2020 störfuðu þar nærri þrefalt fleiri konur en karlar.

Árið 2017 starfaði 41 í ráðuneytinu, 21 kona og 20 karlar. Milli ára jókst sú tala um átta og voru þá 49 starfandi, 29 konur og 20 karlar. Næsta ár fækkaði körlum um sex og konum fjölgaði um fjórar. Þá var starfsfólk aðeins færra, eða 47.

Á síðasta ári voru 55 starfandi í ráðuneytinu, 40 konur og 15 karlar. Þessar tölur eru í ársskýrslum forsætisráðuneytisins.Samkvæmt svari frá Sighvati Arnmundssyni stjórnarráðsfulltrúa, er samanburður milli 2017 og 2020 nokkuð flókinn. Meðal annars hafi ráðherra og aðstoðarmenn ekki verið inni í tölunum frá 2017 en séu inni í tölunum frá 2020.

„Í árslok 2020 voru auk ráðherra, fimm aðstoðarmenn starfandi í ráðuneytinu," segir Sighvatur. Á móti teljist starfsmenn í öryggisgæslu ekki lengur starfsmenn ráðuneytisins heldur sé því sinnt af ríkislögreglustjóra. Þeir hafi verið þrír árið 2017.

Fjölgaði þegar ráðuneytið tók við jafnréttismálum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mætti í þáttinn Pólitík með Pál Magnússyni á Hringbraut í gærkvöldi og ræddi meðal annars fjölgun starfsfólks. „Stóra breytan í því er að við færðum málaflokk jafnréttismála yfir í forsætisráðuneyti úr félagsmálaráðuneyti og þeim málaflokki fylgdi starfsfólk sem myndar núna skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu," sagði Katrín.

Þá sagði ráðherra aukningu starfsfólks eðlilega hliðarverkun af því stóra hlutverki sem forsætisráðuneytið hafi gegnt. Ráðuneytið eigi að vera leiðandi í stefnumótun og hafa tiltölulega sveigjanlegan starfsmannafjölda eftir því hvaða verkefni séu fyrirliggjandi. „Ég segi gjarnan að það skiptir miklu meira máli hvað við erum að fá út úr fólki en fjöldi þess," sagði hún.

Í svari Sighvats segir enn fremur að jafnréttismál hafi verið flutt til forsætisráðuneytisins frá félagsmálaráðuneytinu og að í árslok 2020 hafi verið fimm fastir starfsmenn á skrifstofu jafnréttismála.

Þrír hafi bæst við vegna Úrskurðarnefndar upplýsingamála. Að jafnaði sinni þrír starfsmenn yfirlestri lagafrumvarpa sem fluttur hafi verið frá Skrifstofu Alþingis til forsætisráðuneytisins.