Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar gengur á fund konungs landsins í dag og tilkynnir honum að hann láti af embætti forsætisráðherra. Löfven greindi frá þessu á blaðamannafundi í morgun og sagði að það væri ekki heillavænlegt fyrir Svía að ganga að kjörborðinu í miðjum heimsfaraldri en ríkisstjórn hans mun sitja áfram til bráðabirgða meðan leystur er hnúturinn sem upp er kominn í sænskum stjórnmálum.
Afsögn hans er þó ekki ávísun á nýjar kosningar en Löfven vill fá umboð til að mynda nýja ríkisstjórn. Vantrauststillaga gegn minnihlutastjórn Löfven og Jafnaðarmanna, sem lögð var fram af hinum hægrisinnaða flokki Svíþjóðardemókrötum, var samþykkt fyrir skömmu.
Vantraustið fól í sér að Löfven fékk sjö daga til að mynda nýjan meirihluta, segja af sér eða boða til nýrra kosninga en þær eru næst á dagskrá næsta haust.