For­sætis­ráð­herra Spánar, Pedro Sanchez, kom til eyjunnar La Palma í morgun en þar hófst eld­gos um helgina í eld­fjallinu Cum­bre Vieja. Alls hafa um fimm þúsund í­búar þurft að flýja vegna gossins.

Loft­myndir af svæðinu sýna hvernig hraun­taumurinn rennur niður brekku frá fjallinu og hefur eyði­lagt nokkur hús.

For­sætis­ráð­herrann sagði um helgina að vel væri fylgst með skógar­eldum sem gætu hafist vegna brennandi hraunsins. Herinn og borgara­lög­reglan hafa verið send til eyjunnar til að­stoða við brott­flutning.

22 þúsund jarðskjálftar skráðir

Eld­fjallið gaus síðast fyrir fimm­tíu árum en það er stað­sett á syðri enda eyjunnar þar sem um 80 þúsund manns búa.

Eld­gosið hófst um klukkan 15 að staðar­tíma í gær, sunnu­dag. Fjórir bæir voru rýmdir um leið og skýli sett upp fyrir fólk. Hæsta við­búnaðar­stig hafði verið á eyjunni í um viku eftir að um 22 þúsund jarð­skjálftar voru skráðir.