Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra hyggst skrifa glæpa­sögu með metsölu­höfundinum Ragnari Jóns­syni. Fé­lagarnir greindu frá þessu í Vikunni með Gísla Marteini á RÚV, þar sem þau voru gestir í kvöld.

„Ég veit ekki hvort ég má greina frá því leyndar­máli... að við Katrín ætlum að skrifa saman bók, glæpa­sögu,“ sagði Ragnar í spjall­þættinum. „Þetta er ekki grín?“ spurði Gísli þá hissa en Katrín stað­festi þetta, með semingi þó: „Nja, svona, við höfum átt einn fund um bókina sem við ætlum að skrifa saman, sem gerist í Reykja­vík 1986 en hins vegar hefur ekkert meira gerst í þessu af því ég hef verið að­eins upp­tekin,“ sagði for­sætis­ráð­herrann.

„Ég óttast að Ragnar muni bara skrifa þessa bók og ég fái svona þakkir fremst,“ sagði hún og hló. Hún greindi þá frá því hvernig þau Ragnar hefðu hist í há­degis­mat síðasta janúar, rétt áður en kórónu­veiran barst til landsins, og fléttað saman sögu­þráð fyrir bókina. Katrín er með meistara­gráðu í ís­lenskum bók­menntum en meistara­rit­gerð hennar fjallaði ein­mitt um ís­lenskar glæpa­sögur.

Þau gáfu þá ekki mikið meira upp um bókina annað en að Við­ey komi við sögu. Ragnar talaði þó eins og bókin yrði næsta verk­efni sitt eftir bókina sem hann er að leggja loka­hönd á þessa dagana. Ljóst er að nokkuð mikið verður að gera hjá for­sætis­ráð­herranum næstu mánuði í miðjum heims­far­aldri. „Ég ætla ekki að lofa neinum tíma,“ sagði Katrín. „Hún kemur bara.“