Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hyggst skrifa glæpasögu með metsöluhöfundinum Ragnari Jónssyni. Félagarnir greindu frá þessu í Vikunni með Gísla Marteini á RÚV, þar sem þau voru gestir í kvöld.
„Ég veit ekki hvort ég má greina frá því leyndarmáli... að við Katrín ætlum að skrifa saman bók, glæpasögu,“ sagði Ragnar í spjallþættinum. „Þetta er ekki grín?“ spurði Gísli þá hissa en Katrín staðfesti þetta, með semingi þó: „Nja, svona, við höfum átt einn fund um bókina sem við ætlum að skrifa saman, sem gerist í Reykjavík 1986 en hins vegar hefur ekkert meira gerst í þessu af því ég hef verið aðeins upptekin,“ sagði forsætisráðherrann.
„Ég óttast að Ragnar muni bara skrifa þessa bók og ég fái svona þakkir fremst,“ sagði hún og hló. Hún greindi þá frá því hvernig þau Ragnar hefðu hist í hádegismat síðasta janúar, rétt áður en kórónuveiran barst til landsins, og fléttað saman söguþráð fyrir bókina. Katrín er með meistaragráðu í íslenskum bókmenntum en meistararitgerð hennar fjallaði einmitt um íslenskar glæpasögur.
Þau gáfu þá ekki mikið meira upp um bókina annað en að Viðey komi við sögu. Ragnar talaði þó eins og bókin yrði næsta verkefni sitt eftir bókina sem hann er að leggja lokahönd á þessa dagana. Ljóst er að nokkuð mikið verður að gera hjá forsætisráðherranum næstu mánuði í miðjum heimsfaraldri. „Ég ætla ekki að lofa neinum tíma,“ sagði Katrín. „Hún kemur bara.“