Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, segir að sér hafi verið brugðið yfir fréttum af því að fjórir blaða­menn hafi verið kallaðir til yfir­heyrslu hjá lög­reglunni á Norður­landi eystra með réttar­stöðu sak­bornings í tengslum við frétta­flutning af „skæru­liða­deild“ Sam­herja. Í ó­undir­búnum fyrir­spurna­tíma Al­þingis nú síð­degis sagðist Katrín treysta því að lög­reglan sé með­vituð um mikil­vægi fjöl­miðla og fari ekki af stað nema ríkt til­efni sé til.

Hall­dóra Mogen­sen, þing­maður Pírata, spurði Katrínu út í skýrslu­tökurnar yfir blaða­mönnum Stundarinnar, Kjarnans og RÚV. Skýrslu­tökunum hefur verið frestað þar til úr­skurður Héraðs­dóms Norður­lands eystra liggur fyrir hvort að­gerðir lög­reglu standist lög en búist er við niður­stöðu á mið­viku­dag.

Hall­dóra rifjaði upp ýmis mál sem hefðu aldrei komið fyrir sjónir al­mennings ef ekki hefði verið fyrir fjöl­miðla á borð við Sam­herja­málið, Klaustur­málið, upp­reist æru málið, Pana­ma­skjölin og Borgunar­málið. Að sögn Hall­dóru hafi lög­reglu­stjórinn á Norður­landi eystra tekið upp hjá sjálfri sér að beita á­kvæði hegningar­laga sem hefði verið breytt til að vernda kyn­ferðis­lega frið­helgi til að skil­greina blaða­menn sem sak­borninga.

Þá sagði hún for­sætis­ráð­herra hafa sjálfa gagn­rýnt skæru­liða­deild Sam­herja og vildi vita hvaða augum Katrín liti á það að „lög­reglan á­kveði að yfir­heyra blaða­menn vegna um­fjöllunar þeirra um einn stærsta aðila í ís­lenskum sjávar­út­vegi, þann sama og sætir rann­sókn vegna al­var­legrar spillingar og mútu­brota?“

Katrín sagði engan þurfa að efast um heilindi sín í því að styðja við fjöl­miðla og vísaði í frum­vörp sem hún hafi lagt fram um vernd heimildar­manna og til­lögu um endur­skoðun upp­lýsinga­laga. Þá sagði hún erfitt fyrir sig að tjá sig um ein­stök at­riði málsins meðan það væri enn til rann­sóknar.

„Ég vil þó segja að mér var auð­vitað brugðið yfir fréttum af því að fjórir blaða­menn hefðu verið kallaðir til yfir­heyrslu með réttar­stöðu sak­borninga í tengslum við frétta­flutning sem þau stóðu fyrir og við treystum því að sjálf­sögðu að lög­reglan sé með­vituð um mikil­vægi fjöl­miðla.“

Allar rann­sóknar­að­gerðir gætu haft fælandi á­hrif og því ætti ekki að fara af stað nema ríkt til­efni væri til og meðal­hófs væri gætt. Í fram­haldi þess spurði Hall­dóra for­sætis­ráð­herra um hvað henni þætti um um­mæli fjár­mála­ráð­herra um málið en Katrín svaraði þeirri spurningu ekki beint og sagði ein­fald­lega:

„Við verðum að treysta því að réttar­kerfið og lög­reglan starfi sam­kvæmt þeim lögum og reglum sem hafa verið sett. Þar eru á­kveðin skýr sjónar­mið sem hafa verið fest í lög eins og um vernd heimildar­manna.“