Birna Dröfn Jónasdóttir
Föstudagur 7. janúar 2022
23.00 GMT

Við erum búin að vera að þróa þetta í tíu ár, alveg frá því að Garðar Sigur, sonur okkar, var á brjósti,“ segir Nína Dögg Filippusdóttir leikkona um Verbúðina sem er eftir hana sjálfa, eiginmann hennar Gísla Örn Garðarsson og Björn Hlyn Haraldsson.

„Við fengum svo Nönu Alfreðsdóttur til liðs við okkur í framleiðendateymið og auðvitað væri Verbúðin ekki til ef það væri ekki fyrir mjög marga frábæra samstarfsaðila. Þetta er stór sería. Það er valin manneskja í hverju rúmi,“ segir Nína.

Þegar blaðamaður ræddi við Nínu og Gísla Örn voru þau saman í einangrun vegna Covid-19 á heimili sínu á Seltjarnarnesi. „Það er vissulega skrítin tilfinning að vera búin að setja Verbúðina út í kosmósið,“ segir Nína. „Við erum búin að halda svo lengi á þessu. Ætli það sé ekki þess vegna sem maður er orðinn svona veikur núna,“ segir Gísli Örn og hlær.

Verbúðin er sýnd á RÚV á sunnudagskvöldum og gerist á árunum þegar kvótakerfið var að taka á sig mynd, 1983 til 1991. Vinahjón í litlum bæ fyrir vestan ákveða að fara í útgerð og bjarga þannig heimabyggðinni. Í þáttunum leikur Nína bæjarritarann Hörpu og Björn Hlynur leikur eiginmann hennar, skipstjórann Grím.

Gísli Örn fer með hlutverk Jóns Hjaltalín bæjarstjóra sem verður svo sjávarútvegsráðherra. Selma Björns leikur Gunný, eiginkonu Jóns, sem ætlar ekki að daga uppi í sjávarþorpi og Unnur Ösp og Gói leika svo vinahjónin sem taka þátt í uppbyggingu fyrirtækisins; HG Sæfangs.

Í öðrum þætti Verbúðarinnar leika Nína og Gísli Örn afar skemmtilegt atriði sem á sér stað á hótelherbergi á Hótel Sögu. Á milli þeirra hjóna er mjög greinileg tenging sem skilar sér vel til áhorfandans. „Jón Hjaltalín og Harpa eru á vegferð sem þau geta ekki sjálf vitað hvert leiðir þau á þessum tíma, en þau skynja að það eru spennandi tímar. Tími breytinga. Þeim vex ásmegin og í því býr orka, einhver eldur sem þau leika sér að og verða fljótlega háð. Þetta eru manneskjur af holdi og blóði sem finna til sín,“ segir Gísli Örn.

Nína og Gísli Örn hafa unnið saman síðan áður en þau hófu nám í Leiklistarskólanum og eru afar samrýmd hjón.
Fréttablaðið/Anton Brink

Byggt á raunverulegum sögum

Líkt og fyrr segir fjalla þættirnir að miklu leyti um uppbyggingu kvótakerfisins á Íslandi og aðspurð segjast Gísli Örn og Nína hafa þurft að fara í mikla heimildavinnu við gerð þáttanna. „Þetta er auðvitað flókin flétta að vinna úr, því tilurð kvótakerfisins er sótt úr mikilli heimildavinnu en á sama tíma erum við að segja sögu þessa vinahóps – og hún þarf að vera nokkuð línuleg, en kerfið sjálft sem liggur undir er það ekki. Svo þetta hefur verið mjög mikil vinna að koma handritunum saman. Þetta er margslungið og litríkt,“ segir Gísli Örn.

„Og innblástur þess sem gerist er oftar en ekki byggður á raunverulegum sögum og atburðum líkt og ljóst er orðið. Þó að karakterarnir okkar séu tilbúningur þá sækjum við auðvitað oftar en ekki efnivið úr raunveruleikanum, enda er jú raunveruleikinn oft ýktari en skáldskapurinn,“ segir Nína.

Konur í útgerð

Í fyrsta þætti Verbúðarinnar má sjá karakter Nínu, Hörpu, bera fram kleinur og kaffi fyrir karla sem mæta á fund í bænum og reyna að semja um kaup á togara. Harpa sækir þó fljótt í sig veðrið og verður stór þáttur í útgerð bæjarins.

„Hún varð því sérstaklega áhugaverð, umræðan um hvort það sé trúverðugt eða ekki að konan með nýsteiktu kleinurnar geti tekið yfir heila útgerð, en ég held að það séu nú samt fæstir sem raunverulega beri slíkt fyrir sig,“ segir Nína.

„Þarna sýnum við að þó að konan læðist um og hafi kannski ekki mikið vald til að byrja með, þá er hún engin písl þegar til kastanna kemur,“ segir Nína.

„Það þarf nú ekki að leita í fantasíuna til þess að finna konu sem varð umfangsmikil í íslenskum sjávarútvegi,“ segir Gísli Örn. „Guðrún Lárusdóttir var húsmóðir sem stofnaði Stálskip í Hafnarfirði ásamt eiginmanni sínum Ágústi Sigurðssyni. Þau keyptu og gerðu upp gamlan togara og urðu eitt öflugasta útgerðarfyrirtæki landsins,“ bætir hann við.

„Sagan okkar er dæmisaga. Dæmisaga um vinahóp sem er staddur á tímamótum þegar hugmyndin eða þörfin fyrir kvótakerfið verður til. Og saga þessa vinahóps eins og hún birtist í Verbúðinni hefði vissulega getað átt sér stað á þessum árum,“ segir Gísli Örn.

Gísli Örn og Nína í hlutverkum Jóns Hjaltalíns og Hörpu í Verbúðinni.
Mynd/Aðsend

Kvótakerfið sem enginn skilur

En hvernig datt ykkur í hug að gera sjónvarpsseríu um kvótakerfið?

„Skarphéðinn Guðmundsson, sem þá var dagskrárstjóri Stöðvar 2, kom að máli við okkur og spurði hvort við myndum vilja gera rómantíska seríu sem gerist úti á landi,“ segir Nína.

„Við erum með tengingu vestur og okkur hafði lengi langað að gera eitthvað þar svo við byrjum að fabúlera með hugmyndir og erum komin eitthvað áleiðis með hugmynd um kvenprest sem mætir vestur og eitthvað. Svo förum við að ræða hvernig allt virkar þarna, með fiskinn og útgerðina, og þá áttum við okkur á því að við vitum merkilega lítið, ef eitthvað, um tilurð kvótakerfisins,“ segir Nína.

„Og ef við vitum ekkert um þetta, hvernig verður það þá með næstu kynslóðir? Og verandi Íslendingur þá er það kannski ákveðin skylda okkar að vera upplýst um það sem varðar náttúruauðlindir landsins. Og við nefndum þættina Verbúðin, því verbúðin er fyrirbæri sem kveikir ákveðnar minningar hjá þeim sem hafa aldur til, bæði vondar og góðar, og svo er þessi nostalgía, en svo fjöruðu verbúðirnar út þegar kvótakerfið komst á,“ bætir hún við.

„Við þekkjum það öll sem Íslendingar að þegar talið berst að kvótakerfinu þá bera margir fyrir sig að þeir viti ekkert um það eða eru snöggir að skipa sér í fylkingar. Þess vegna þessi dæmisaga. Þannig að við getum fengið einhvern skilning á því og átt um það samtöl án þess að finna til vanmáttar gagnvart því. Ef okkur tekst að halda þræði gegnum þessar persónur, þá verður þetta vonandi á tungumáli sem við skiljum. Þetta er jú þrátt fyrir allt okkar kerfi. Við bjuggum það til. Við samþykktum það og berum þannig ábyrgð á því. Er þá ekki eðlilegt að við þekkjum það?“ segir Gísli Örn.

Nína og Gísli Örn í skemmtilega atriðinu sem gerist á Hótel Sögu í öðrum þætti verbúðarinnar.
Mynd/Aðsend

Samrýmd hjón

Nína og Gísli hafa verið saman í að verða 28 ár. Þau kynntust tveimur árum áður en þau sóttu bæði um í Leiklistarskólann og komust saman inn. „Við erum eins og kvótakerfið, það skilur þetta enginn,“ segir Gísli Örn og þau Nína skella upp úr.

„Áður en við fórum í inntökupróf í leiklistarskólann var Gísli Örn í námi úti í Noregi og ég flutti þangað til hans. Hann setti upp Rocky Horror-sýningu þarna og ég dansaði í henni og var í kórnum svo við byrjuðum að vinna saman á sama tíma og við byrjum saman,“ segir Nína en þau Gísli Örn bjuggu þá í kommúnu í Noregi.

„Þegar við komum heim lendum við svo saman í átta manna bekk í Leiklistarskólanum, ásamt Birni Hlyni, og í svona leiklistarnámi vinnur bekkurinn mjög náið saman og það höfum við gert alla tíð síðan,“ segir hún.

Nína og Gísli Örn útskrifuðust úr Leiklistarskólanum árið 2001. Fyrir útskrift stofnuðu þau Vesturport ásamt Birni Hlyni Haraldssyni, Ingvari E. Sigurðssyni og fleirum, og hafa síðan leikið í og framleitt fjölda leiksýninga, kvikmynda og sjónvarpssería. Þau eiga tvö börn og tóku nýlega í gegn hús á Seltjarnarnesi þar sem þau búa ásamt börnum sínum.

Fyrir utan að sinna saman heimili, ala upp börn og vinna saman eiga Gísli Örn og Nína einnig sameiginleg áhugamál, svo sem sjósund, hestamennsku og dans. „Gísli var nú ekki sérstaklega mikill dansari til að byrjað með, en varð lífið ekki skemmtilegra þegar þú byrjaðir að dansa?“ segir Nína og beinir orðum sínum til Gísla Arnar sem játar því.

„Það er miklu skemmtilegra að dansa en að dansa ekki,“ segir Gísli Örn. „Já, ég mæli með því fyrir alla sem dansa ekki að stíga inn í þennan heim, það er miklu skemmtilegra að lifa dansandi en ekki dansandi,“ segir Nína.

„Þó að við séum nú ekki dansandi á hverju kvöldi þá er vissulega gaman að stíga út úr þægindarammanum sínum. Þetta byrjaði hjá mér þegar ég var að leika í sjónvarpsseríu á Englandi. Ég var mjög lengi í burtu og leiddist svo á kvöldin þegar upptökurnar voru búnar,“ segir Gísli Örn sem spurði fólkið sem vann með honum í verkefninu hvað það gerði til að drepa tímann á kvöldin.

„Þau sögðu mér að þau færu að dansa á salsaklúbbum sem voru ótrúlegt en satt úti um allt í Newcastle. Ég var svo gamaldags að mér fannst algjört rugl að fara edrú út að dansa á þriðjudagskvöldi, í raun það asnalegt að ég ákvað að snúa við blaðinu, ögra sjálfum mér, og verða karlmaður sem þorir að dansa.“

Spurð að því hvaða áhrif það hafi á samband þeirra að vera tíðum í sundur mánuðum saman vegna vinnu segja þau mikilvægt að slíta ekki keðjuna á milli sín. „Þetta er bara eins og hafið. Stundum eru öldur, stundum er það slétt og stundum er ofsasjór, jafnvel brim, en ég myndi segja að við höfum unnið mjög vel úr þeim öldum sem hafa komið í okkar líf,“ segir Nína og Gísli Örn tekur undir.

„Það hljómar kannski klisjukennt, en það eru ákveðin forréttindi að gera svona mikið saman, 28 ár eru langur tími og við höfum lifað gefandi og litríku lífi,“ segir hann.

Gísli Örn og Nína segjast hafa lært ákveðna ró í Covid, þau eru nú saman í einangrun.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fullt hús af börnum

Þegar Gísli Örn var lítill æfði hann fimleika hjá Ármanni og segist hann nánast hafa eytt allri sinni barnæsku í fimleikasal. „Ármann sá um mig í æsku og svo tók Nína við,“ segir Gísli Örn kíminn. Þegar þau svo tóku húsið sitt í gegn settu þau Nína og Gísli Örn fimleikasal í bílskúrinn.

„Þegar við gerðum upp húsið gerðum við flest hérna sem er skemmtilegt fyrir börnin, hérna er róla, borðtennis, stórt fiskabúr og fimleikasalur sem stendur reyndar til að breyta í fótboltavöll og skipta fimleikagólfinu út fyrir gervigras,“ segir Gísli Örn og bætir við að húsið sé alltaf fullt af börnum.

„Það hefur alltaf fylgt Nínu mikill barnaskari,“ segir hann hlýlega. „Já, ég á mikið af guðbörnum og alls konar auka börnum sem ég elska mikið og hér er alltaf mikið fjör og mikið af börnum. Ég hefði eiginlega átt að verða bóndakona með fullt af börnum,“ segir hún en bendir þó á að það sé ekki endilega of seint að breyta um stefnu.

„Ég er ennþá ung kona og kannski ég verði bara bóndakona, maður veit aldrei hvað lífið ber í skauti sér,“ bætir Nína við en þau Gísli Örn eru þekkt fyrir það meðal vina sinna og kunningja að vera svokallaðir „doers“, það er, fólk sem kemur miklu í verk og framkvæmir það sem því dettur í hug.

Tvær ástarsóttkvíar

Bæði eru þau framtakssöm þegar kemur að vinnu og áhugamálum. Nínu langaði til dæmis nýlega að byrja að lesa meira og eina lausnin var að stofna sinn eigin bókaklúbb. „Sveppi vinur minn og Íris konan hans eru í bókaklúbbi og eftir að þau byrjuðu í honum fóru þau að lesa svo mikið. En það var ekki hægt að komast inn í þeirra klúbb svo ég hóaði bara saman fólki og stofnaði minn eigin klúbb,“ segir Nína.

„Þessi framkvæmdagleði varð til þegar ég dróst inn í leiklist í Háskólanum í Osló og svo áfram í Leiklistarskólanum hér heima. Við vorum í frábærum bekk og skólinn ýtti undir tækifærin til að fara sínar leiðir og nýta rýmið sem fyrir var. Svo hefur þetta bara haldið áfram. Af sömu orku og þarna fyrir 28 árum,“ segir Gísli Örn.

„Svo er það líka þannig að þegar maður er í starfi þar sem maður er oft fastur í vinnunni og kemst ekki frá eins og í leikhúsinu, þá nýtir maður tímann sem kemur á milli verkefna til að gera alls konar hluti sem tengjast ekki vinnunni,“ segir Nína.

„Íslenska þjóðin er mjög vinnusöm þjóð og það er viðtekin venja að það sé löstur ef við höfum ekki nóg að gera,“ segir Gísli Örn og þau Nína eru sammála um að Covid hafi kennt okkur að slaka á að einhverju leyti.

„Í fyrstu bylgjunni fórum við nokkrum sinnum í sóttkví og ég tók tvær ástarsóttkvíar því ég vildi bara vera með Gísla í sóttkví þegar hann var að koma frá útlöndum. Þá vorum við bara hérna heima og þetta var yndislegur tími,“ segir Nína.

Þá segir hún Covid hafa tekið á en það hafi líka gefið. „Maður hefur lært einhverja ákveðna ró,“ segir hún. „Mér finnst alltaf eins og ég sé að missa af einhverju en í þessu ástandi þurfti maður bara einhvern veginn að slaka á,“ bætir Nína við.

„Já, það er ótrúlegt að það hafi þurft Covid til að maður lærði að slaka á, en ég held að maður verði fljótur að hrökkva í sama farið, það verður bara helmingi meira að gera af því það er svo mikið búið að safnast upp,“ segir Gísli Örn.


„Ég tók tvær ástarsóttkvíar því ég vildi bara vera með Gísla í sóttkví þegar hann var að koma frá útlöndum.“


Margt fram undan

Margt ert fram undan hjá Gísla Erni og Nínu sem segja að þrátt fyrir að Verbúðin sé komin í sýningu hér sé „kvótabarnið“ þeirra rétt að taka sín fyrstu skref úti í hinum stóra í heimi. Þættirnir verða sýndir á öllum Norðurlöndunum, í Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi og víðar og hafa nú þegar unnið til verðlauna á verðlaunahátíðum bæði í Frakklandi og á Spáni. Þá eru þeir tilnefndir til handritaverðlauna Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins.

„Í rauninni er svo formlega sala þáttanna bara að hefjast núna og ég held að það verði spennandi að fylgja Verbúðinni úr hlaði. Nú á hún sitt eigið líf,“ segir Gísli Örn. „Það er svo langt síðan við byrjuðum á þessu að við vildum alls ekki fara með þetta á Netflix því það voru svo fáir með það, við vildum fara í línulega dagskrá,“ bætir hann hlæjandi við.

„Já, þetta er búið að breytast hratt en mér finnst æðislegt að hafa þetta svona, sérstaklega hér. Annars væru allir búnir að horfa en núna hangir þetta í loftinu og það er spenna og umræða í gangi,“ segir Nína.

Meðfram áframhaldandi vinnu í tengslum við Verbúðina stefna Nína og Gísli fyrst og fremst á að ná sér af Covid og losna úr einangrun. Þau eru einnig bæði á leið á svið, Gísli Örn í verkinu Ég hleyp í Borgarleikhúsinu og Nína í Ást og upplýsingum í Þjóðleikhúsinu.

Fréttablaðið/Anton Brink
Athugasemdir