Minjastofnun vill að fornleifafræðingur fylgist með framkvæmdum á Vitastíg 9 og 9A þar sem rífa á friðuð hús og endurbyggja ásamt því að auka byggingarmagnið. Í umsögn til skipulagsfulltrúa vegna væntanlegrar breytingar á deiliskipulagi lóðanna bendir Minjastofnun á að friðun húsanna hafi ekki verið felld úr gildi.

„Lóðirnar Vitastígur 9 og 9A eru staðsettar á svæði, afmörkuðu af Hringbraut og Snorrabraut sem reynslan hefur sýnt að er einstaklega viðkvæmt með tilliti til minja,“ segir Minjastofnun sem segir að allt jarðrask á lóðunum skuli fara fram undir eftirliti fornleifafræðings á kostnað framkvæmdaaðila.

Útlit Vitastígs 9 og 9A séð frá götunni á að vera nánast óbreytt
Fréttablaðið/Batteríið Arkitektar

„Komi í ljós fornminjar undir yfirborði jarðar í tengslum við framkvæmdir skal stöðva verkið og skýra Minjastofnun frá fundinum svo fljótt sem unnt er,“ segir stofnunin og vísar í lög um menningarminjar.

„Minjastofnun mun í kjölfarið taka ákvörðun um það hvort frekari rannsókna er þörf og með hvaða hætti,“ segir áfram í umsögn stofnunarinnar sem kveðst ekki gera frekari athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna.