Stjórn Félags fornleifafræðinga hefur lýst yfir miklum vonbrigðum yfir því hvernig staðið var að skipun nýs þjóðminjavarðar og segja ráðningarferlið óvandað, ógegnsætt og metnaðarlaust.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu stjórnarinnar sem send var til Lilju Daggar Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, vegna málsins.

Fréttablaðið greindi frá því í blaðinu í dag að skipað hefði verið í embættið án þess að það hafi verið auglýst. Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands, sagði skipunina mjög vafasaman gjörning. „Þetta virðist vera ákveðið í skjóli nætur og án nokkurrar umræðu.“

Stjórn Félags fornleifafræðinga taka undir orð Sigurjóns Baldurs og segja þvílíkt metnaðarleysi fyrir íslenskri menningu og safninu að ekki hafi verið staðið betur að ráðningarmálum þjóðminjavarðar en þetta.

Í yfirlýsingunni er sérstaklega tekið fram að gagnrýni stjórnarinnar snúi ekki að þeirri persónu sem var skipuð heldur að því að staðan hafi ekki verið auglýst til umsóknar.

„Þjóðminjasafn Íslands er eitt höfuðsafna þjóðarinnar og miðstöð íslenskrar menningar. Það á að gegna lykilhlutverki í metnaðarfullu safna- og rannsóknarstarfi en í ljósi þeirra starfshátta sem voru hafðir við skipun nýs þjóðminjavarðar má efast um metnað núverandi ríkisstjórnar fyrir hönd þess,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.

Stjórninni þyki sárt að ekki skuli hafa verið staðið betur að ráðningunni og að íslensk menning eigi betra skilið en að vera gert að embættismannaleik.