Maður í vesturhluta Svíþjóðar rakst óvænt á forngripi sem taldir eru vera frá bronsöldinni. Á meðal munanna sem fundust voru hálsmen, armbönd og nælur, um fimmtíu talsins. Gripirnir eru taldir vera um 2.500 ára gamlir.

Thomas Karlsson sem fann fjársjóðinn er kortagerðarmaður og var að undirbúa ratleik í skóginum þegar hann kom auga á eitthvað sem glampaði á jörðinni. Talið er að gripunum hafi verið komið fyrir sem fórn.

Að sögn sænskra fornleifafræðinga er sjaldgæft að finna slíka forngripi í skógum, en ættbálkar á svæðinu skildu slíkar fórnir venjulega eftir í ám eða votlendi.

Sænsk lög krefjast þess að hver sem finnur fornleifar á borð við þessar láti yfirvöld vita þar sem litið er á þær sem eign ríkisins sem ákveði svo hvort viðkomandi skuli fá umbun fyrir. Karlsson segir að þótt þau yrðu vel þegin þá skipti verðlaun hann ekki miklu máli. 

„Það eru engar skriflegar heimildir til um þessa menningu frá þessum tíma,“ segir Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur á Fornleifafræðistofunni um fundinn. „Það er oft miðað við að bronsöldin hafi byrjað um 1.500 f.Kr. og að henni hafi lokið um 500 f.Kr. svo þessir munir eru frá síðari hluta tímabilsins.“

Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur hjá Fornleifastofunni.
GVA

Fornleifafundir á borð við þennan eru sjaldgæfir en sambærilegur fundur átti sér stað skömmu fyrir 1970 en var þó minni í sniðum. Að sögn Bjarna eru gripir frá tímabilinu mjög einkennandi og erfitt að fara villur vega um að munirnir séu frá bronsöld.

„Þetta var tímabil stórhöfðingja sem réðu yfir misstórum landsvæðum og nýttu sér dýrgripi á borð við þessa til að sýna fram á veldi sitt,“ segir hann. „Þarna er ef til vill um að ræða fórn frá höfðingja til að sýna fram á ríkidæmi sitt og vald eða þá til að þóknast guðunum.“

Bjarni segir að vafalítið muni fundurinn veita aukna innsýn í bronsaldarmenningu í Svíþjóð þótt rannsóknir á gripunum séu enn á frumstigi. Hann segir einnig að óvenjuleg staðsetning fundarins veki upp möguleikann á að fornleifar sé að finna á svæðum þar í kring þar sem áður var talið að væru engar frá þessum tíma. 

„Það voru auðvitað ekki fornleifafræðingar sem fundu þessa muni heldur vökull áhugamaður sem átti leið hjá,“ segir Bjarni sem hefur sjálfur grafið á svæðinu. „Í skráningarvinnu er talað um hvít svæði þar sem ólíklegt þykir að minjar finnist en þessi fundur segir okkur að við þurfum alltaf að vera vakandi.“