Fimleikasamband Bandaríkjanna, Ólympíunefnd og Ólympíunefnd fatlaðra í Bandaríkjunum munu greiða fórnarlömbum Lawrence Nassar, fyrrverandi lækni bandaríska landsliðsins í fimleikum, 380 milljónir Bandaríkjadala í bætur. Þetta var tilkynnt þegar sátt náðist í málinu í gær.

Meira en fimm hundruð konur sem Nassar beitti kynferðislegu ofbeldi munu því hljóta bætur. Þar á meðal eru gullverðlaunahafar á borð við Simone Biles, McKayla Maroney og Aly Raisman.

„Engin upphæð mun nokkurn tíma bæta skaðann sem hefur orðið og það sem þessar konur hafa gengið í gegnum,“ sagði Rachael Denhollander, eitt af fórnarlömbum Nassar, sem tók þátt í sáttaviðræðunum. „En á einhverjum tímapunkti verður samningaviðræðum að ljúka vegna þess að þessar konur þurfa hjálp – og þær þurfa á henni að halda núna.“

Nassar afplánar í dag 175 ára fangelsisdóm fyrir brot sín.