Jóhannes Rúnarsson framkvæmdarstjóri Strætó segir að það hafi ekki verið vagnstjóri Strætó sem hafi fengið snjó yfir sig frá gröfumanni verktakafyrirtækisins Óskataks. Samt sem áður stendur til að forsvarsmenn Óskataks og Strætó fundi í dag um málið.
Í gærkvöld greindi mbl frá myndbandi af gröfumanni Óskataks að hella snjó yfir annan mann sem stóð á gangstétt hliðina á gröfunni. Í myndbandinu sem fór í dreifingu á samfélagsmiðlum sést maðurinn og gröfumaðurinn eiga í einhverjum deilum, en ekki er vitað hvað fór á milli mannana.
Jóhannes staðfestir að það hafi ekki verið starfsmaður Strætó sem hafi fengið snjóinn yfir sig. Því er enn óljóst hver var fórnarlamb gröfumannsins.
Ingibjörg Sigursteinsdóttir, mannauðsstjóri Óskataks, segir í samtali við Fréttablaðið að málið sé til skoðunar og það standi enn til að funda með Strætó um málið. Gröfumaðurinn hefur verið sendur í leyfi frá störfum í kjölfar atviksins.