Snorri Ás­munds­son, listamaður, hefur til­kynnt fram­boð sitt til formanns í Sjálf­stæðis­flokknum. Hann segist bjóða sig fram fyrir hönd kvenna.

„Ég til­kynnti það á þriðju­daginn að ef engin kona ætlar að bjóða sig fram í þessum feðra­veldis­flokki þá skyldi ég fórna mér í það fyrir hönd kvenna í nafni kvenna og karla og annarra kynaf­brigða,“ segir Snorri í til­kynningu.

„Enn hefur kona ekki setið í for­manns­stóli og af hverju ættu kjós­endur að flykkjast til að kjósa Sjálf­stæðis­flokkinn þegar hann er leiddur af mið­aldra hvítum körlum þjökuðum af stjórn­semi og frekju?

Snorri hefur starfað sem myndlistamaður í um þrjátíu ár en hann hefur staðið fyrir ýmsum samfélagsgjörningum sem vakið hafa mikla athygli. Hann bauð sig áður fram til formanns Sjálfstæðisflokksins árið 2009 en hlaut ekki kjör. Hann stofnaði síðan Kattaframboðið á Akureyri fyrir sveitastjórnarkosningarnar fyrr á þessu ári

Sjálfstæðisflokkurinn þurfi konu í formannsstólinn

Snorri segir Sjálf­stæðis­flokkinn þurfa á konu að halda í for­manns­stólinn en nú sé ljóst að „þær efni­legu konur sem í flokknum eru ætla ekki að taka skrefið og þá sé ég mig til­neyddan til að til­kynna hér með fram­boð mitt í for­manns­stólinn.“

Snorri segist vissu­lega vera mið­aldra hvítur karl en hann segist vera vel tengdur konunni í sér. Þá segist hann elska og virða konur meira en karla.

Þá heitir hann því að leiða flokkinn inn í feminíska byltingu og auka jöfnuð í flokki for­réttinda karla. „Ég vil sjá feminískar konur ekki bara konur með punga, njóta sín sem jafningjar karl­manna á öllum sviðum,“ segir Snorri.

„Á­fram með byltinguna, húrra fyrir konum þessa lands, húrra fyrir mæðrum þessa lands og húrra fyrir fjall­konunni. Á­fram Sjálf­stæðis­flokkur.“

Til­kynningu Snorra má lesa í heild sinni hér að neðan:

Kæru flokks­syst­kini í Sjálf­stæðis­flokknum

Nú verða for­manns­kosningar í flokknum á sunnu­daginn. Enn hefur kona ekki setið í for­manns­stóli og af hverju ættu kjós­endur að flykkjast til að kjósa Sjálf­stæðis­flokkinn þegar hann er leiddur af mið­aldra hvítum körlum þjökuðum af stjórn­semi og frekju? Ég til­kynnti það á þriðju­daginn að ef engin kona ætlar að bjóða sig fram í þessum feðra­veldis­flokki þá skyldi ég fórna mér í það fyrir hönd kvenna í nafni kvenna og karla og annarra kynaf­brigða. Vissu­lega er ég mið­aldra hvítur karl en ég er vel tengdur konunni í mér og elska og virði konur meira en karla. Flestir vinir mínir eru konur og þær eru yfir­leitt skemmti­legri og dýpri en við frum­stæðu karl­mennirnir og meira sexý fyrir minn smekk. Móðir jörð þarf meira á konunni og móðurinni meira á að halda á þessum tímum þar sem græðgi mannanna er náttúrunni yfir­sterkari. Sjálf­stæðis­flokkurinn þarf konu í for­manns­stólinn og nú er orðið ljóst að þær efni­legu konur sem í flokknum eru ætla ekki að taka skrefið og þá sé ég mig til­neyddan að til­kynna hér með fram­boð mitt í for­manns­stólinn sem fyrsta karl­kyns fjall­kona Reykja­víkur og fyrsta karl­kyns­konan til að bjóða sig fram sem for­maður Sjálf­stæðis­flokksins. Ég heiti því að leiða flokkinn inn í feminiska byltingu og auka jöfnuð í flokki for­réttinda karla. Ég vil sjá feminiskar konur ekki bara konur með punga, njóta sín sem jafningja karl­manna á öllum sviðum. Á­fram með byltinguna, húrra fyrir konum þessa lands, húrra fyrir mæðrum þessa lands og húrra fyrir fjall­konunni. Á­fram Sjálf­stæðis­flokkur

Snorri Ás­munds­son