Snorri Ásmundsson, listamaður, hefur tilkynnt framboð sitt til formanns í Sjálfstæðisflokknum. Hann segist bjóða sig fram fyrir hönd kvenna.
„Ég tilkynnti það á þriðjudaginn að ef engin kona ætlar að bjóða sig fram í þessum feðraveldisflokki þá skyldi ég fórna mér í það fyrir hönd kvenna í nafni kvenna og karla og annarra kynafbrigða,“ segir Snorri í tilkynningu.
„Enn hefur kona ekki setið í formannsstóli og af hverju ættu kjósendur að flykkjast til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þegar hann er leiddur af miðaldra hvítum körlum þjökuðum af stjórnsemi og frekju?
Snorri hefur starfað sem myndlistamaður í um þrjátíu ár en hann hefur staðið fyrir ýmsum samfélagsgjörningum sem vakið hafa mikla athygli. Hann bauð sig áður fram til formanns Sjálfstæðisflokksins árið 2009 en hlaut ekki kjör. Hann stofnaði síðan Kattaframboðið á Akureyri fyrir sveitastjórnarkosningarnar fyrr á þessu ári
Sjálfstæðisflokkurinn þurfi konu í formannsstólinn
Snorri segir Sjálfstæðisflokkinn þurfa á konu að halda í formannsstólinn en nú sé ljóst að „þær efnilegu konur sem í flokknum eru ætla ekki að taka skrefið og þá sé ég mig tilneyddan til að tilkynna hér með framboð mitt í formannsstólinn.“
Snorri segist vissulega vera miðaldra hvítur karl en hann segist vera vel tengdur konunni í sér. Þá segist hann elska og virða konur meira en karla.
Þá heitir hann því að leiða flokkinn inn í feminíska byltingu og auka jöfnuð í flokki forréttinda karla. „Ég vil sjá feminískar konur ekki bara konur með punga, njóta sín sem jafningjar karlmanna á öllum sviðum,“ segir Snorri.
„Áfram með byltinguna, húrra fyrir konum þessa lands, húrra fyrir mæðrum þessa lands og húrra fyrir fjallkonunni. Áfram Sjálfstæðisflokkur.“
Tilkynningu Snorra má lesa í heild sinni hér að neðan:
Kæru flokkssystkini í Sjálfstæðisflokknum
Nú verða formannskosningar í flokknum á sunnudaginn. Enn hefur kona ekki setið í formannsstóli og af hverju ættu kjósendur að flykkjast til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þegar hann er leiddur af miðaldra hvítum körlum þjökuðum af stjórnsemi og frekju? Ég tilkynnti það á þriðjudaginn að ef engin kona ætlar að bjóða sig fram í þessum feðraveldisflokki þá skyldi ég fórna mér í það fyrir hönd kvenna í nafni kvenna og karla og annarra kynafbrigða. Vissulega er ég miðaldra hvítur karl en ég er vel tengdur konunni í mér og elska og virði konur meira en karla. Flestir vinir mínir eru konur og þær eru yfirleitt skemmtilegri og dýpri en við frumstæðu karlmennirnir og meira sexý fyrir minn smekk. Móðir jörð þarf meira á konunni og móðurinni meira á að halda á þessum tímum þar sem græðgi mannanna er náttúrunni yfirsterkari. Sjálfstæðisflokkurinn þarf konu í formannsstólinn og nú er orðið ljóst að þær efnilegu konur sem í flokknum eru ætla ekki að taka skrefið og þá sé ég mig tilneyddan að tilkynna hér með framboð mitt í formannsstólinn sem fyrsta karlkyns fjallkona Reykjavíkur og fyrsta karlkynskonan til að bjóða sig fram sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Ég heiti því að leiða flokkinn inn í feminiska byltingu og auka jöfnuð í flokki forréttinda karla. Ég vil sjá feminiskar konur ekki bara konur með punga, njóta sín sem jafningja karlmanna á öllum sviðum. Áfram með byltinguna, húrra fyrir konum þessa lands, húrra fyrir mæðrum þessa lands og húrra fyrir fjallkonunni. Áfram Sjálfstæðisflokkur
Snorri Ásmundsson