Rússar hafa nú formlega staðfest að viðræður eru hafnar um framsal körfuboltakonunnar Brittney Griner sem handtekin var fyrir vörslu fíkniefna í Rússlandi fyrr á þessu ári. Hún hlaut níu ára fangelsisdóm fyrir vörslu maríjúana en talið er að dómur hennar sé sérstaklega þungur af pólitískum ástæðum.

Þetta kemur fram á fréttavef CBS news en Rússar munu fara fram á að fangaskipti verði viðhöfð.

Sá aðili sem Rússar sækjast eftir að framseldur verði í stað Griner er vopnasalinn Viktor Bout sem nú situr í fangelsi í Bandaríkjunum. Bout var dæmdur í 25 ára fangelsi árið 2011 vegna ásakana um samsæri, vopnasmygl og aðstoð við hryðjuverkasamtök. Bout var lengi þekktur sem „sölumaður dauðans“ í Bandarískum fjölmiðlum en hann starfaði lengi sem vopnasali og seldi vopn til hryðjuverkasamtaka, glæpagengja og einræðisherra.

Viktor Bout var framseldur til Bandaríkjanna eftir hafa verið handtekinn á Tælandi árið 2010.
Mynd/getty

Mikið hefur verið rætt um mögulegt framsal Griner en aldrei hefur verið staðfest að formlegar viðræður séu hafnar fyrr en nú.

Alexander Datchiev yfirmaður samskipta við Bandaríkin hjá rússneska utanríkisráðuneytinu staðfesti við rússnesku fréttamiðstöðina TASS að viðræður við Bandaríkin væru á frumstigi. „Umræður um hin viðkvæmu málefni varðandi fangaskiptin eru nú í gangi undir stjórn rússlandsforseta“ sagði Datchiev.

Talið er að Bandaríkjamenn muni einnig leitast eftir að fá einnig fyrrverandi hermanninn, Paul Whelan framseldan í skiptunum en hann afplánar nú 16 ára fangelsisdóm í rússnesku fangelsi vegna gruns um njósnir.

Bandaríkjamaðurinn Paul Whelan hefur setið í fangelsi í Rússlandi síðan 2020. Talið er að Bandaríkjamenn muni reyna að fá hann framseldan með Brittney Griner.
Mynd/getty