Óformlegar stjórnarmyndunarviðræður Sósíaldemókrata, Frjálslyndra og Græningja í Þýskalandi ganga það vel að búist er við því að þær verði gerðar formlegar strax eftir helgi.

Næsti stóri fundur er á föstudag og þó að einhver mál séu flókin úrlausnar eru leiðtogarnir bjartsýnir og telja að ný stjórn gæti orðið að veruleika fyrir áramót.

Eftir kosningarnar sunnudaginn 26. september var ljóst að Frjálslyndir og Græningjar myndu ráða ferðinni í stjórnarmyndun því að framhald á samstarfi Sósíaldemókrata og Kristilegra demókrata var talið ómögulegt eftir að kanslarinn Angela Merkel lét af störfum. Eins og búist var við völdu leiðtogar þeirra að ræða við Sósíaldemókrata en þetta eru þeir þrír flokkar sem unnu sigra í kosningunum.

Scholz næsti kanslari

Fastlega er búist við því að Olaf Scholz, fjármálaráðherra og vara­kanslari síðan árið 2018, verði næsti kanslari Þýskalands. Scholz er lýst sem hófsömum vinstrimanni og hefur hann verið mjög aðhaldssamur hvað varðar ríkisreksturinn og opinber útgjöld. Það kunna Frjálslyndir að meta og Scholz hafði þegar lýst því yfir að hann vildi vinna með Græningjum.

Frjálslyndir og Græningjar eru minnugir kosninganna árið 2017 en eftir þær fóru flokkarnir í langar viðræður við Kristilega demókrata. Á endanum sigldu viðræðurnar í strand því að Frjálslyndir gengu úr skaftinu. Framlengdi Merkel í staðinn samstarfið við Sósíaldemókrata, sem þó að það hafi mjög góðan meirihluta á þingi, hefur aflað hvorugum stjórnarflokknum vinsælda.Lars Klinbeil, þingflokksformaður Sósíaldemókrata, sagði við tímaritið Politico að leiðtogarnir tækju á stóru og erfiðu málunum fyrst.

„Óformlegar viðræður eru mjög ólíkar formlegum, en það sem við erum að gera núna skiptir mjög miklu máli upp á framhaldið,“ sagði hann.

Leynd yfir ágreiningsefnum

Vildi hann ekki greina frá því hver þessi stóru ágreiningsefni væru en flest þeirra liggja í augum uppi. Stærsta málið er skattlagning á hátekjufólk, sem Frjálslyndir eru á móti en Græningjar fylgjandi. Einnig orkuskiptin sem Græningjar vilja að ríkið sjái að stærstum hluta um á meðan Frjálslyndir vilja hvetja einkaaðila til þess með skattaívilnunum.

Á meðan viðræðurnar standa yfir er Kristilegi demókrataflokkurinn að undirbúa leiðtogaskipti.

Flokkurinn beið afhroð í kosningunum og tapaði 50 þingsætum. Hefur flokkurinn ekki haft færri sæti síðan eftir kosningarnar 1949. Leiðtogi flokksins, Armin Laschet, sem tók við í janúar hefur gefið það út að hann muni axla ábyrgð og stíga til hliðar. Á mánudag sagði Paul Ziemiak þingflokksformaður að ný forysta yrði kjörin um áramót.

Sækist ekki eftir áframhaldandi forystu

Annar flokkur sem beið ósigur í kosningunum er einnig að skipta um forystu, það er öfgahægriflokkurinn Valkostur fyrir Þýskaland. Flokkurinn tapaði 11 þingsætum í kosningunum og félagatalið hefur skroppið saman.

Á mánudag tilkynnti Jörg Meuthen, annar tveggja formanna flokksins, að hann hygðist ekki sækjast eftir áframhaldandi forystu eftir að hafa leitt flokkinn í sex ár.

Meuthen hefur hingað til verið talinn „hófsamur“ og því er búist við að flokkurinn fari enn lengra til hægri eftir að hann hættir, að andstaðan við múslima og innflytjendur aukist og enn ólíklegra sé að aðrir vilji starfa með honum