Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru komin í formlegar viðræður um áframhaldandi meirihlutasamstarf í Hafnarfirði. Það kemur fram á vef RÚV.

Flokkarnir hafa verið í samstarfi síðustu fjögur árin og héldu sex fulltrúa meirihluta sínum eftir kosningarnar en hlutföllin breyttust þó á þann veg að Sjálfstæðisflokkur er nú með fjóra í stað fimm og Framsókn með tvo í stað eins fulltrúa.

Ekki náðist í oddvita flokkanna við vinnslu fréttarinnar en á vef RÚV kemur fram að þau hafi verið að undirbúa sig fyrir viðræður rétt fyrir hádegi. Það er því hægt að ætla að þær standi yfir núna.

Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknar, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að flokkurinn myndi gera kröfu um að fá meira vægi innan samstarfsins í takt við niðurstöður kosninganna. Hann vildi ekkert staðfesta um bæjarstjórastólinn og sagði það ekki í forgangi í viðræðum. Síðustu fjögur ár hefur oddviti Sjálfstæðisflokksins, Rósa Guðbjartsdóttir, verið bæjarstjóri.