Samkeppniseftirlitið hefur hafið formlega rannsókn á Orku Náttúrunnar, ON. Samkvæmt bréfi stofnunarinnar til fyrirtækisins snúa meint brot að sölu, uppsetningu og þjónustu ON á hleðslustöðvum og hleðslum fyrir rafbíla.Kæran var lögð fram af Ísorku, sem er söluaðili hleðslustöðva, í júlí í fyrra. Fram kom í umfjöllun Fréttablaðsins á sínum tíma að í kærunni, sem er í á annað hundruð liðum, er ON sakað um að nota markaðsráðandi stöðu á raforkumarkaði til að koma sér í einokunarstöðu á miðlun rafmagns til rafbíla.

ON er alfarið í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Samkeppniseftirlitið sendi ON tilkynningu um rannsóknina í september. Hefur ON sent stofnuninni bréf þrívegis þar sem athugasemdum er komið á framfæri. „Að virtum þeim upplýsingum og gögnum sem aflað hefur verið við forathugun málsins og í ljósi þess að umkvörtuð háttsemi virðist enn til staðar og vísbendingar um að hún raski samkeppni, hefur Samkeppniseftirlitið ákveðið að hefja formlega rannsókn á háttsemi ON á mögulegum markaði fyrir hleðslur, hleðslustöðvar og rafmagn, sbr. nánar erindi kvartanda sem félagið hefur undir höndum,“ segir í bréfinu.

Þá er óskað frekari gagna, þar á meðal upplýsinga um allar hleðslustöðvar ON frá 2016 til júlíloka í ár. Einnig er farið fram á yfirlit yfir tekjur og rekstrarkostnað vegna hleðslustöðva og sölu rafhleðslna. Þá er óskað eftir gögnum um innkaup á hleðslustöðvum auk upplýsinga um tekjur ON vegna smásölu rafmagns til heimila og fyrirtækja. Áttu þau gögn að vera afhent stofnuninni í síðasta lagi á mánudaginn.

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra ON, segir fyrirtækið hafa gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu innviða fyrir rafbíla á Íslandi síðustu 6 árin. „Til þess að rafbílavæðing Íslands gæti orðið að veruleika þurftu innviðirnir að koma á undan eftirspurninni, þ.e. rafbílunum, sem voru um 100 talsins þegar ON hóf vegferðina,“ segir Berglind.„Ákvörðun ON um að taka virkan þátt í þróun innviða á Íslandi er byggð á stefnu fyrirtækisins í umhverfis- og loftslagsmálum, sem styður við markmið Íslands og áherslu stjórnvalda á orkuskipti í samgögnum.

Styrkir frá Orkusjóði, þ.e. ríkinu, hafa verið mikilvægir uppbyggingu innviða fyrir rafbíla á Íslandi, fyrir ON og önnur sem tekið hafa þátt í þróuninni á síðari árum.“Hún segir að þegar rafbílnum fjölgi sífellt séu fleiri fyrirtæki farin að taka þátt í uppbyggingu innviða fyrir rafbíla, sem sé afar jákvætt og nauðsynlegt til þess að þjóðin nái langtímamarkmiðum þegar kemur að orkuskiptum.

„Markaður með hleðslustöðvar á Íslandi er lítill og frekari uppbygging háð framlagi frá ríkinu í þeim tilgangi að stuðla að fjárfestingum sem stuðla að því að Ísland nái settum loftslagsmarkmiðum,“ segir Berglind.

„Skoðun Samkeppniseftirlitsins á markaðnum kom Orku náttúrunnar á óvart vegna þess hve lítill markaðurinn er auk þess sem hann er á algjöru frumstigi uppbyggingar og á þannig eftir að mótast og þróast eftir því sem rafbílum fjölgar áfram næstu árin. Engu að síður, þá mun skoðun Samkeppniseftirlitsins verða til þess að staða og skipulag þessa markaðar skýrist og ég vonast innilega til þess að niðurstaðan verði hvetjandi fyrir áframhaldandi uppbyggingu þessara mikilvægu innviða til lengri tíma.“