Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra

„Ég held það fari um mig eins og þjóðina almennt að ég var slegin eftir að hafa horft á þennan þátt og séð þau gögn sem þar eru birt. Ég tel að ef málavextir eru með þeim hætti eins og þarna lítur út fyrir að vera þá sé það auðvitað Samherja fyrst og fremst til skammar. Ef málin reynast svona vaxin þá er það auðvitað áhyggjuefni fyrir orðspor okkar allra þó aðeins um eitt fyrirtæki sé að ræða.

Það er auðvitað bara eðlileg krafa stjórnvalda að íslensk fyrirtæki fylgi íslenskum lögum og þeim lögum sem gilda í þeim löndum sem þau starfa í. Undir því eiga auðvitað öll fyrirtæki að standa.

Það sem er næst á dagskrá er að fara yfir í ríkisstjórn á morgun ferli málsins framundan. Stóra málið finnst mér núna vera að þetta verði rannsakað ofan í kjölinn og hverjum steini snúið við í því.“

Logi Einarsson

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar

„Fyrstu viðbrögð eru náttúrulega algjört sjokk og óhugur. Þarna er lítil og fátæk þjóð í auðugu landi af náttúruauðlindum sem er búið að blóðmjólka í mjög langan tíma og er að komast til sjálfsbjargar, að verða fórnarlamb þessarar græðgi enn á ný.

Ég auðvitað býð með að fella alla dóma um hverjir bera ábyrgð og hverjir ekki. En málið lítur svo sannarlega alvarlega út og það þarf að rannsaka það í kjölinn. Við þurfum jafnframt að skoða okkar vinnulag og vinnubrögð í sambandi við þróunarsamvinnu og hver er eftirfylgni okkar þegar verkefnum lýkur.

Mér finnst þetta líka beina sjónum okkar að við þurfum að taka alvarlega umræðu um íslenskar auðlindir. Það þarf að vera skýrt og gott ákvæði í stjórnarskrá en við þurfum líka að ræða úthlutun fiskveiðiheimilda.“

Inga-Sæland_180912_204354.jpg

Inga Sæland formaður Flokks fólksins

„Ég er bara þrumulostin. Þetta bara skilur eftir ákveðið áfall og maður óskar bara eftir því að þetta verði gjörsamlega rannsakað í kjölinn.

Án þess að við séum með einhverjar sleggjur, málið er alls ekki á þeim stað að við getum það, þá vona ég bara að þetta muni verða einhver vendipunktur, til dæmis varðandi það sem lýtur að auðlindinni okkar.

Það er nýbúið að setja okkur á þennan gráa lista og benda á að við erum það ríki sem hefur dregið lappirnar í því að reyna tryggja almennilega umgjörð utan um skipulagða glæpastarfsemi og peningaþvætti. Þetta á því miður eftir að draga dilk á eftir sér í alþjóðasamfélaginu.

Samherji hefur skilað ómældum tekjum í þjóðarbúið og skaffað þúsundum manna störf. Það ber auðvitað að þakka en þeir hefðu auðvitað ekki getað það ef þeir hefðu ekki fengið þannig umgjörð frá okkur.“

Þorgerður-Katrín_180912_213343.jpg

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar

„Þetta er sláandi mál. Þetta undirstrikar það að stjórnmálamenn eiga ekki að koma nálægt ákvörðun á verði á kvóta. Við í Viðreisn höfum frá fyrsta degi barist fyrir því að fara markaðsleiðina í sjávarútvegi, að um verðlagningu gildi skýrar gegnsæjar reglur.

Lobbýisminn er hvergi sterkari en í sjávarútveginum og landbúnaðinum. Það kom mér í raun á óvart í ráðuneytinu [þegar hún var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra] hversu óvenjumikil samskiptin eru við slíka aðila.

Nú hlýtur að vera kominn tími til að læra af hlutunum. Það þýðir ekki að vera á innsoginu í nokkra daga og svo er allt búið. Misvægið í vægi atkvæða ýtir undir það að halda þessu kerfi gangandi. Svo þarf að koma á auðlindaákvæði í stjórnarskrá. En höfum líka hugfast að ríkisstjórnin er óskastjórn þessara sömu hagsmunagæsluaðila.“

F29220517 Smári McCa 0.jpgSmári McCarthy formaður Pírata

„Nú er að koma í ljós enn eitt dæmið um kerfisbundna linkennd gagnvart spillingu á Íslandi. Við erum með veikar varnir gagnvart peningaþvætti og það á enn eftir að útskýra ýmislegt varðandi fjárfestingaleið Seðlabankans, sem Samherji nýtti sér í stórum stíl. Ég hef óskað eftir sérstökum umræðum á Alþingi um spillingarmál.“

Sigmundur-D.jpg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokkins

„Nú er þetta mál til rannsóknar. Ég vona að það gangi vel og skili skýrri heildarmynd sem hægt verður að taka afstöðu til.

Þó má segja að hvernig sem þetta tiltekna mál reynist vaxið þá minnir það á mikilvægi þess að þjóðir ráði sjálfar yfir auðlindum sínum og nýti. Það á bæði við um þróunarlönd og önnur ríki.“