Meðlimur í starfshópi ráðherra um starfsumhverfi smálánafyrirtækja á Íslandi fékk ótal óumbeðin sms-skilaboð frá smálánafyrirtækinu 1909.

Fyrirtækið sem um ræðir er skráð í Danmörku en starfar á íslenskum markaði, það lánar aðeins í íslenskum krónum og er augljóslega ætlað íslenskum neytendum.

Hákon Stefánsson, lögmaður og formaður starfshópsins, hélt erindi í gær á fundi SFF og Umboðsmanns skuldara um stöðu ungs fólks á lánamarkaði þar sem skilaboðin bar á góma.

„Þetta var sérstaklega gróft í þessu tilviki þar sem hlutaðeigandi aðili hafði afskráð sig af þessari síðu en hélt áfram að fá þessi skilaboð,“ segir Hákon. „Ég gerði þetta líka í tengslum við vinnuna í starfshópnum. Ég skráði mig þarna inn til að sjá hvaða kjör voru í boði og hverjir skilmálarnir eru. Svo afskráði ég mig og fór að fá þessi skilaboð.“

Starfshópurinn veit ekki hver er á bak við fyrirtækið þar sem eignarhaldið sé vel falið í flóknum fléttum. Fyrirtækin eru fleiri, öll voru þau rekin hér á landi þangað til Alþingi setti lög um að samanlagður kostnaður lánþega megi aldrei verða hærri en 50 prósent af lánsfjárhæðinni. Öll þessi fyrirtæki má nú finna á netinu með dönsku léni. Hákon segir að þrátt fyrir það gildi um þau íslensk lög.

Hákon segir það skýrt í lögum að ekki megi gefa skuldara villandi upplýsingar um stöðu sína. Neytendasamtökin sendu erindi í haust á innheimtufyrirtækið Almenn innheimta, sem skráð er til húsa á Siglufirði en með pósthólf í Kópavogi. Fyrirtækið svaraði ekki erindinu.

Sá sem svaraði í símann fyrir Almenna innheimtu vildi ekki tjá sig um hvort fyrirtækið sæi um innheimtu fyrir 1909. Þegar spurt var hvort fyrirtækið upplýsti um að samanlagður kostnaður lánþega vegna vaxta og innheimtu af lánum megi aldrei verða hærri en 50 prósent af lánsfjárhæðinni, var blaðamaður beðinn um kennitölu og að endurtaka erindið í tölvupósti. Ekkert svar barst frá Almennri innheimtu.

[email protected]