Rúmlega 62 prósent starfsmanna Menntamálastofnunar (MMS) telja nauðsynlegt að forstjóri stofnunarinnar, Arnór Guðmundsson, víki frá störfum, samkvæmt ályktun trúnaðarmanna MMS. Mikið hefur verið fjallað um mál MMS eftir að Fréttablaðið greindi frá bráðabirgðaniðurstöðum Auðnast, þar sem dregin var upp dökk mynd af stjórnarháttum innan stofnunarinnar.

Anna Kristín Sigurðardóttir, formaður ráðgjafarnefndar MMS, hefur miklar áhyggjur af stöðunni.

„Við höfum verið að fylgjast með þessu máli og það er auðvitað afskaplega bagalegt að svona lykilstofnun í íslensku menntakerfi sé komin í þessa stöðu,“ segir hún.

Anna segir enga formlega ályktun um málið væntanlega frá nefndinni og að allar breytingatillögur muni fara fram í samtali við menntamálaráðuneytið. Nefndin er skipuð af ráðherra og er helsta hlutverk hennar að vera til ráðgjafar um langtímastefnumótun í starfsemi MMS.

„Að okkar mati er málið hjá ráðuneytinu núna. Staðan er auðvitað viðkvæm og það er ekki rétt að við séum að grípa inn í hana á þessu stigi enda hefur ráðgjafarnefndin sem slík ekki umboð til þess,“ segir hún.

Anna segir niðurstöðu úttektar Auðnast þó skýra og að ljóst sé að grípa þurfi inn í með einum eða öðrum hætti.

„Þetta er lykilstofnun í menntakerfinu. Það voru auðvitað bundnar vonir við hana þegar hún var sett á stofn fyrir sex árum eða svo. Það er bara nauðsynlegt að grípa þarna inn í með einhverjum hætti.“