Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í færslu sem hún birtir á Facebook að ofan á háan kostnað og sterkt gengi krónunnar þurfi forsvarsmenn ferðaþjónustunnar, sem nú eru stödd á stórri ráðstefnu í Berlín að kynna Ísland, að svara fyrir óróa á vinnumarkaði og hvað muni gerast verði af fyrirhuguðum verkföllum verkalýðsfélaganna í mars og apríl. 

„Það eru erfiðir tímar og atvinnuþref. Það eru blikur á lofti. Á stærstu ferðakaupstefnu í heimi, ITB í Berlín, eru nú rúmlega 30 íslensk ferðaþjónustufyrirtæki að kynna Ísland og selja Íslandsferðir. Hér er áhuginn mikill og möguleikarnir óþrjótandi - en samt eigum við í vök að verjast vegna hás innlends kostnaðar og sterks gengis krónu,“ segir Bjarnheiður í færslu sinni. 

Hún segir að það sé mikið í húfi og að það sé bæði „dapurlegt“ og „grafalvarlegt“ að „gullegginu“ sé kastað á loft í dag „með mikilli gleði, með bros á vör og af fullkomnu skeytingarleysi um það hvar, hvenær og í hvaða ástandi það lendir“ og að það sé síst til þess að bæta kjör kvenna, sama hvaða tekjuhópi þær tilheyri

„Það er mikið í húfi. Afkoma fjölmargra íslenskra fyrirtækja og starfsmanna þeirra, bæði karla og ekki síður fjölmargra kvenna! Sama gildir um gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og tekjur ríkis og sveitarfélaga.“

Færslu Bjarnheiðar er hægt að sjá hér að neðan.